Ástráður Haraldsson
Ástráður Haraldsson
Fátt var um svör hjá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu þegar ítrekuð var fyrirspurn til ráðuneytisins um ástæður þess að ráðgjafarfyrirtækið Attentus var fengið til að gera úttekt á embætti ríkissáttasemjara

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Fátt var um svör hjá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu þegar ítrekuð var fyrirspurn til ráðuneytisins um ástæður þess að ráðgjafarfyrirtækið Attentus var fengið til að gera úttekt á embætti ríkissáttasemjara.

Segir ráðuneytið í hinu síðara svari að engin kvörtun hafi borist ráðuneytinu vegna starfsmannamála ríkissáttasemjara, en þó hafi verið ráðist í úttektina „þar sem ríkissáttasemjari og starfsfólk embættisins höfðu meðal annars komið á framfæri við ráðuneytið að álag væri mikið, auk þess sem fámennt embætti þurfti aðstoð við sín mannauðsmál“.

Ekki er svarað spurningu um hvers vegna embættið hafi þurft aðstoð. Þess er þó getið að á vinnustaðnum starfi fjórir einstaklingar. Auk Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara starfa þrjár konur á vinnustaðnum, tveir sáttasemjarar og móttökustjóri.

Spurningu um hver vandamálin hafi verið, þau gætu tæpast verið eingöngu vegna álags fyrst starfsandinn og -ánægjan væri með besta móti, var svarað á þennan veg:

„Svörin í úttektinni eru auðrekjanleg og starfsfólki var heitið trúnaði um þau. Á grundvelli persónuverndar verður ekki greint frekar frá niðurstöðunum að öðru leyti en því að þrátt fyrir mikið álag kom í ljós að starfsánægja var mikil og starfsandi góður.“

Nefnt er að fundað hafi verið í apríl sl. með starfsfólki hjá embættinu, þ.m.t. ríkissáttasemjara, vegna mannauðsmála, rekstrarmála og verkefna fram undan.

„Í júní var rætt við ríkissáttasemjara og fór úttektin fram í kjölfar þess að starfsfólk hafði verið upplýst um hana. Með vísan til smæðar embættisins og persónugreinanlegra niðurstaðna verður úttektin ekki afhent,“ segir í svari ráðuneytisins, en Morgunblaðið hafði óskað eftir aðgangi að úttekt Attentus á embættinu, ásamt öllum samskiptum þeirra einstaklinga sem málið varðar við ráðuneytið vegna þessa máls.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson