Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir
Það er stefna ríkisstjórnarinnar að gæta samræmis við reglur nágrannaríkja á sviði útlendingamála. Ríkisstjórnin mun gera nauðsynlegar breytingar í þessum málaflokki.
Á Alþingi liggur fyrir frumvarp mitt um breytingar á útlendingalögum. Frumvarpið gerir stjórnvöldum kleift að afturkalla vernd þeirra sem brotið hafa alvarlega af sér. Í þeirri lagasetningu felast mikilvæg skilaboð. Með frumvarpinu er líka afnumin hin svokallaða 18 mánaða regla, séríslensk regla um að útlendingur fái sjálfkrafa dvalarleyfi vegna tafa á málsmeðferð.
Áform ríkisstjórnarinnar um að efla embætti lögreglunnar á Suðurnesjum hafa verið kynnt. Á næsta haustþingi mun ég leggja fram frumvarp um brottfararstöð ásamt því að færa móttökustöð til lögregluembættisins. Það mun gera meðferð mála skilvirkari. Samhliða uppfyllum við alþjóðlegar skuldbindingar okkar en nú eru útlendingar í ólögmætri dvöl vistaðir í fangelsi. Sú framkvæmd hefur verið gagnrýnd og hefur henni réttilega verið lýst sem ómannúðlegri.
Misnotkun á dvalarleyfum ekki liðin
Okkur skortir yfirsýn varðandi þá sem hér fá dvalarleyfi. Það þarf að loka fyrir misnotkun á dvalarleyfum og samræma kerfið við Norðurlöndin. Það á að vera erfitt að svindla en létt að gera rétt.
Þess vegna skipaði ég starfshóp um dvalarleyfi til að endurskoða reglur um dvalarleyfi á Íslandi. Hópurinn færir mér skýrslu og tillögur að úrbótum.
Á árunum 2022-2024 tók Útlendingastofnun á móti tæplega 28 þúsund umsóknum um dvalarleyfi, rúmlega helmingi fleiri en á árunum á undan. Fjöldi umsókna á árinu 2024 tvöfaldaðist frá árinu 2020. Þessi sömu ár voru metár hvað varðar fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Öruggari landamæri
Landamærin okkar eru orðin pólitískt átakaefni. Opnum landamærum er nú mótmælt af einum hópi og lokuðum landamærum mótmælt af öðrum. Þetta eru jaðrarnir í umræðunni. Hlutverk stjórnvalda er að setja sér og fylgja ábyrgri stefnu í útlendingamálum.
Kjarni málsins er sá að Ísland getur ekki tekið við öllum. Við
eigum hins vegar að taka vel á móti því fólki sem fær leyfi til að setjast hér að. Mikilvægast af öllu í því sambandi er að veita börnum af erlendum uppruna jöfn tækifæri á við íslensk börn. Íslenskukunnátta opnar nýjar dyr fyrir þessi börn.
Fyrir skemmstu var frumvarp mitt um farþegaupplýsingar samþykkt. Nú eru öll flugfélög skyldug til að afhenda farþegalista. Það er mikilvægt skref í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi og gerir landamærin öruggari.
Ríkisstjórnin er samhent um þessa stefnu og þessar aðgerðir. Það munar um sterka stjórn sem gengur hreint til verks.
Höfundur er dómsmálaráðherra.