Hitabylgjan sem hefur haldið vesturhluta meginlands Evrópu í heljargreipum síðustu daga færði sig austar í álfuna í gær. Þýska veðurstofan gaf út viðvörun fyrir allt landið og sagði að búast mætti við að hitinn færi á einhverjum stöðum yfir 40 stig.
Í höfuðborginni Berlín hafði hitinn náð 37 stigum um hádegisbil og borgarbúar nýttu gosbrunna til að kæla sig.
Hitinn olli truflunum á samgöngum. Í norðurhluta Þýskalands bráðnaði m.a. malbik á hraðbrautum og lestarferðum var aflýst í vesturhluta landsins.
Hitinn náði 40 stigum í París höfuðborg Frakklands á þriðjudag en spár gera ráð fyrir að svalir vindar frá Atlantshafi blási mesta hitanum burt í dag. Á Spáni er hins vegar ekki búist við að hitinn lækki að ráði fyrr en um helgina.