Viðtal
Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
„Árið 2020 bað Rannveig Þórhallsdóttir fornleifafræðingur mig um að vera með sér að grafa á Seyðisfirði og ég sagði já þótt ég tæki strax fram að ég væri hætt að taka að mér stórar rannsóknir,“ segir Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur og horfir á blaðamann yfir stofuborð í notalegri íbúð sinni í hinum fallega bæ Drammen í Noregi.
Ekki þótti Drammen, stærsta bifreiðainnflutningshöfn Skandinavíu, þó alla tíð spennandi og hljómaði gamall brandari svo að enginn færi úr lestinni þegar hún nam staðar á brautarstöðinni í Drammen.
Allt er þetta nú breytt og sagnfræðilegt heimildargildi brandara auk þess vafasamt. Drammen er núorðið stórkostlega flottur bær þar sem dæmalaus uppbygging hefur átt sér stað og smjör drýpur af hverju strái. Örstutt upp eftir til Óslóar akandi eða með lestinni sem enginn fór úr í gamla daga.
Á heimili Ragnheiðar, aðeins steinsnar frá Ypsilon-brúnni myndrænu, er enn fremur boðið upp á sterkt og gott svart kaffi sem sambýlismaður hennar, Knut Paasche, deildarstjóri tækni- og stafrænnar fornleifadeildar við menningarminjastofnunina Norsk institutt for kulturminneforskning, ber okkur og má segja að þar hæfi skel kjafti þar sem tveir fornleifafræðingar, annar norskur og hinn úr Garðabænum, koma saman.
Ragnheiður veitti mbl.is nýlega viðtal af rausnarskap sínum og bar saman húsfundi frá víkingaöld á Íslandi og í Noregi í kjölfar umfjöllunar þar á vefmiðlinum um merkilegan skála sem fannst ekki alls fyrir löngu sunnarlega í Troms-fylki lengst í norðrinu. Var hún umsvifalaust beðin um að gera betur grein fyrir sjálfri sér og rannsóknum sínum í því viðtali sem hér birtist.
Fundu eitthvað undir skriðu
Ragnheiður heldur áfram um verkefnið á Seyðisfirði. „Ég hélt að þetta yrðu bara tvö ár, en þetta urðu fimm ár, ég kláraði síðasta sumar,“ segir hún og brosið nær til augnanna. „Þannig að ég er meira og minna búin að búa á Seyðisfirði síðustu ár. Þar var byrjað að byggja snjóflóðavarnir undir fjallinu Bjólfi 2020 og það er dálítið gaman að segja frá því að þegar ég vann á Þjóðminjasafninu 1998 og '99 hélt ég að ég væri að fara að grafa á Seyðisfirði árið 2000, en það liðu nú 20 ár í viðbót áður en það gerðist,“ segir fornleifafræðingurinn með aðkenningu að hlátri.
Seyðisfjörður, nánar tiltekið Fjörður þar í firðinum, er Ragnheiði hugleikinn, það fær hún ekki dulið. „Forkönnunin sem við gerðum gerði ekki ráð fyrir að við myndum finna allt sem við fundum og í ágúst 2021, rétt áður en ég var að hætta, kalla á mig fornleifafræðingarnir „í felti“ [á vettvangi] og segja „Ragnheiður, við erum búin að finna eitthvað undir skriðunni hérna“ og ég segi þeim að það geti ekki verið, þessi skriða sé forsöguleg, frá því fyrir landnám,“ heldur Ragnheiður áfram.
Annað kom á daginn. „Ég fer út og skoða þetta og sé þá að það er fullt af mannvistarleifum undir skriðunni sem er metri á hæð og þá uppgötvum við að skriðan er söguleg. Við héldum fyrst að hún væri frá 1150, en hún er frá 1100, og undir henni fundum við fjögur kuml frá víkingaöld – bátskuml, kvenkuml með best varðveitta textíl sem hefur fundist á Íslandi. Svo fundum við aðra gröf sem í voru hundur og hestur og loks eina með manni og hesti,“ segir Ragnheiður.
Fann Bjólf í bátskumli
Fjörður í Seyðisfirði var landnámsbær Bjólfs hins norska sem kom hingað út, eins og það hét á gömlum bókum, frá Voss í Vestur-Noregi, ekki langt frá Bergen. Bjólfur hélt til Íslands ásamt fóstbræðrum sínum, vildi líkast til ekki una ofríki Vesturlandskonungsins Haraldar hárfagra frekar en margir samtímamenn hans.
„Bjólfur var samkvæmt sögunni grafinn uppi á fjallinu, en ég held að ég hafi nú fundið hann í bátskumlinu, eða ég kemst örugglega ekkert nær honum en það,“ segir Ragnheiður og hlær hjartanlega yfir biksvörtu kaffinu.
„Þá förum við að gera fleiri könnunarskurði og þá kemur það í ljós að það eru minjar víðar undir þessari skriðu og þar finnum við þennan skála frá 10. öld, einstaklega vel varðveittan,“ segir hún af þungamiðju fornleifarannsóknanna í Firði, en svo háttaði til að skriðan á sínum tíma lagðist yfir skálann og átti sinn þátt í að varðveita býli landnámsmannsins Bjólfs sem kom alla leið frá Voss í Noregi til Seyðisfjarðar á löngu horfinni landnámsöld.
Stór hluti húsa, sem voru á svæðinu, hvarf á haf út í mannskæðasta snjóflóði Íslandssögunnar, 18. febrúar 1825, að sögn Ragnheiðar. „Þar fóru húsin á þessu svæði, sem ég var að grafa, bara út í sjó, sextán hús. Þarna dóu fimmtán manns og miklu fleiri slösuðust,“ segir hún frá.
Norðurendanum tjaslað upp
Saga, sem til er um Bjólf, tengir hann raunar náttúruhamförum, ekki snjóflóðinu þó, heldur skriðu.
„Það er til þjóðsaga um hann þar sem segir að hann sé heygður uppi á fjallinu til þess að vernda bæinn fyrir skriðu, þannig að um þessa skriðu er til minni alveg frá því hún féll á sínum tíma og það er svolítið magnað. Það sýnir þrjóskuna í ættstofni Bjólfs að menn hafa alltaf búið þarna,“ segir Ragnheiður glettnislega.
Hún bendir á að skriður falli almennt á rigningartímum, gjarnan vor eða haust, „og hefði þetta gerst að hausti til hefðu menn ekki getað farið neitt og bara verið á staðnum. Húsið skemmist ekki allt þannig að við sjáum hvernig þeir tjasla upp norðurenda skálans. Svo er búið þarna í einhvern tíma áður en byrjað er að byggja annað hús sunnan við það sem fyrir var, sem ég hef ekki enn grafið upp, þarna er það mikið af mannvistarleifum og annar bæjarhóll,“ segir fornleifafræðingurinn og augun lýsa nánast af þeim fræðilega áhuga sem hennar stétt virðist vera í blóð borinn.