María Margrét Jóhannsdóttir
Breski grínistinn David Baddiel hefur á undanförnum árum markvisst dregið fram í dagsljósið alla þá duldu og ekki duldu fordóma sem ríkja í garð gyðinga. Í bók sinni og samnefndri heimildarmynd Jews Don't Count færir Baddiel rök fyrir því að þrátt fyrir að gyðingar séu jaðarsettur minnihlutahópur sem verður fyrir töluverðum fordómum og hatursglæpum þá sé þeim haldið utan við alla þá inngildingar-umræðu sem hefur átt sér stað síðustu ár. Í heimildarmyndinni ræðir hann við þekkta menn á borð við Neil Gaiman og David Schwimmer sem lék í Friends. Þeir þættir hafa í seinni tíð hlotið mikla gagnrýni fyrir að sýna ekki breidd í leikaravali en Schwimmer segir að þrátt fyrir að þau sjónarmið eigi rétt á sér þá sé staðreyndin sú að þarna var einn sem tilheyrði minnihlutahópi, gyðingur að leika gyðing. Þó er skautað fram hjá því í allri umræðu því þeir bara teljast ekki með. Mögulega vegna þess að gyðingar eru sagðir ríkir og valdamiklir og njóti þá forréttinda. Nokkuð sem Baddiel segir að sé enn ein birtingarmynd fordóma og eigi ekki við rök að styðjast. Bendir hann t.d. á rannsókn sem segir að ríkasti minnihlutahópurinn sé hindúar. Heimildarmyndin er góð og má finna á AppleTv+ og bókin er enn betri.