Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Verslunarrekstur er þjónusta sem þarf að vera í hverju byggðarlagi,“ segir Árný Huld Haraldsdóttir, kaupmaður á Reykhólum í Reykhólasveit. Í nóvember á síðasta ári endurreisti hún verslunarrekstur í byggðarlaginu, sem þegar þarna var komið sögu hafði legið niðri í heilt ár. Hún vildi verða við því að íbúar og aðrir gætu keypt helstu nauðsynjar og vinnandi fólk á svæðinu fengið heitan hádegismat.
„Dagvörur má nálgast hér; mjólk, brauð, ávexti, grænmeti, sælgæti og fleira slíkt. Ég hef ágæt kjör hjá birgjum og held verði á vörum eins lágu og mögulegt er.“
Reksturinn sem Árný heldur úti heitir einfaldlega Búðin og er í litlu timburhúsi á vinstri hönd þegar ekið er inn í þéttbýlið á Reykhólum. Þetta er bygging sem Reykhólahreppur á og Árný hefur án endurgjalds fyrsta ár starfsemi sinnar. Í því felst stuðningur sveitarfélagsins.
Jafnhliða verslunarrekstri stendur Árný með fjölskyldu sinni að fjárbúi á bænum Bakka í Geiradal. Slíkt er raunar eftir öðru; í fámennum byggðum úti á landi er fólk gjarnan í mörgum hlutverkum, eins og þarf svo sú hringekja sem kölluð er samfélag snúist eðlilega. Þar er Árný ágætt dæmi, en auk fyrrgreindra hlutverka á hún sæti í sveitarstjórn Reykhólahrepps og var oddviti um skeið.
Á síðustu árum hafa verið byggðar alls 13 nýjar íbúðir á Reykhólum. Slíkt er svar við húsnæðisskorti í byggðarlaginu, þar sem íbúar eru nú um 120 og fer fjölgandi.
„Fólk sem er í byggingarvinnu hér, starfsfólk í þörungaverksmiðjunni og fleiri koma gjarnan hingað í hádeginu. Hér er mikið að gera og margir í mat. Svínakjötið sem hér var á boðstólum í dag var fljótt að klárast enda hádegisgestirnir um 40 og allir þurftu sitt. Á litlum stað eins og hér helst allt í hendur; umsvif á einum stað leiða til hins sama hjá þeim næsta,“ segir Árný á Reykhólum.