Haag Trump Bandaríkjaforseti ræðir við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra á fundinum í Haag, en þar samþykktu NATO-ríkin að auka útgjöld til varnarmála.
Haag Trump Bandaríkjaforseti ræðir við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra á fundinum í Haag, en þar samþykktu NATO-ríkin að auka útgjöld til varnarmála. — Ljósmynd/Atlantshafsbandalagið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýsamþykkt markmið leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Haag um að bandalagsríkin auki útgjöld sín til varnarmála upp í 5% fyrir árið 2035 þykir krefjandi fyrir þau flest, enda varð það úr sem málamiðlun, að markmiðinu var skipt í tvennt: Annars …

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Nýsamþykkt markmið leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins í Haag um að bandalagsríkin auki útgjöld sín til varnarmála upp í 5% fyrir árið 2035 þykir krefjandi fyrir þau flest, enda varð það úr sem málamiðlun, að markmiðinu var skipt í tvennt: Annars vegar skuldbinda bandalagsríkin sig til að auka bein útgjöld sín til varnarmála upp í að minnsta kosti 3,5% árið 2035, og hins vegar eiga þau að verja allt að 1,5% í ýmis varnartengd verkefni.

Þau verkefni eru skilgreind á víðan hátt í yfirlýsingu leiðtogafundarins, en þar segir að þau séu „meðal annars að verja okkar mikilvægu innviði, verja netkerfi okkar, tryggja borgaralegan viðbúnað og viðnámsþol, leysa nýsköpun úr læðingi og styrkja varnariðnað okkar“. Þessi skilgreining var höfð opin til þess að tryggja ríkjum Evrópu svigrúm til að skilgreina hvað þau teldu vera varnartengd útgjöld.

Eftir því hvernig menn skilgreina útgjöldin má segja að Ísland verji nú um það bil 0,13% af VLF til varnarmála, en þar inni er meðal annars sú aðstoð sem íslensk stjórnvöld hafa sent til Úkraínu. Þá er rekstur Landhelgisgæslunnar ekki með í þeim útreikningi, en sé hann talinn með, þá er um að ræða um 0,3% af VLF.

Núverandi útgjöld Íslands til málaflokksins eru því, gróft reiknað, á bilinu 6,5 milljarðar og upp í um 14 milljarða króna, en VLF Íslands árið 2024 var um 4.616 milljarðar króna á ári. Sé miðað við núverandi VLF er 1,5% því rétt tæpir 70 milljarðar króna. Gera má ráð fyrir að VLF Íslands framreiknað til ársins 2035 verði á bilinu 7.000-9.000 milljarðar króna, og 1,5% af því á bilinu 105-135 milljarðar króna á því ári.

Mörg verkefni þegar í bígerð

Oddvitar ríkisstjórnarinnar lýstu því yfir í aðsendri grein á Vísi hinn 25. júní að markmið ríkisstjórnarinnar væri að standa við 1,5% markmiðið árið 2035. Nefndu þeir þar m.a. eflingu Landhelgisgæslunnar og landamæraeftirlits, auk þess sem hlutverk Íslands sem gistiríkis fyrir bandamenn okkar verður eflt.

Í skýrslu sem utanríkisráðuneytið gaf út um stöðu varnarmála hér á landi í lok síðasta árs í ráðherratíð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur kemur fram að nú þegar hafi verið hafist handa við uppbyggingu gistirýmis til að taka við erlendum liðsafla, byggingu birgðageymslu með búnaði til að gera við og reka flugvelli og stækkun flughlaða. Þá er verið að undirbúa stækkun eldsneytisbirgðageymslunnar og nýjan viðlegukant í Helguvíkurhöfn og uppbyggingu stjórnstöðvar fyrir kafbátaeftirlit, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Í skýrslunni kemur einnig fram að þessi verkefni eru að mestum hluta fjármögnuð af bandarískum stjórnvöldum og mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins, en einnig að hluta af íslenskum stjórnvöldum. Má ætla að hlutur Íslands í þessum og öðrum beinum framkvæmdum á næstu tíu árum verði talinn með þegar framlag Íslands í átt að 1,5% markmiðinu er reiknaður.

Aukið áfallaþol

Oddvitar ríkisstjórnarinnar nefndu einnig sérstaklega í grein sinni svokallað „áfallaþol“, sem einnig hefur verið nefnt viðnámsþol (e. resilience), en það á að auka með því að „byggja upp og verja innviði sem snúa að orku, fjarskiptum og samgöngum“. Þessir þrír þættir mynda saman þrjú af þeim sjö markmiðum sem Atlantshafsbandalagið hefur sett bandalagsríkjum sínum fyrir til þess að tryggja viðnámsþol þeirra.

Ljóst þykir að styrking samgöngukerfa verður ofarlega hjá mörgum NATO-ríkjum í Evrópu þegar kemur að því að uppfylla 1,5% markmiðið, og er líklegt að Ísland verði þar ekki undantekning. Má þar nefna að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030 er stefnt að því að framlög til samgöngumála verði aukin úr 66 milljörðum króna og upp í 74 milljarða á tímabilinu, en þar af munu sjö milljarðar fara til „vegabóta, viðhalds og þjónustu strax á árinu 2026“.

Ekki er þó víst að hægt verði að fella allar samgöngubætur undir varnarmálahattinn, en líklegt má telja að verkefni á borð við t.d. að fækka einbreiðum brúm á þjóðvegi 1 gæti talist sem „varnartengd útgjöld“. Þá yrði efling hafnarmannvirkja, líkt og nú þegar er í undirbúningi í Helguvík, einnig ofarlega á lista bandalagsins yfir útgjöld sem fella mætti undir 1,5% markmiðið.

Þegar horft er á önnur markmið NATO um viðnámsþol bandalagsríkjanna sést að þeim er þar einnig uppálagt að tryggja að nægar varabirgðir séu af lyfjum og eldsneyti í landinu, sem og að landið sé með tryggt matvælaöryggi og vatnsból. Ákveði stjórnvöld að ráðast í aðgerðir í þessum málaflokkum yrði líklega auðvelt fyrir þau að rökstyðja það sem hluta af 1,5% markmiðinu.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson