Kristín Magnúsdóttir, Ólafur Arnalds, Ívar Ingimarsson
Íslenskur landbúnaður hefur á ríflega hálfri öld breyst frá því að vera handverksdrifinn og fjölmennur í að vera tæknilegur og afkastamikill. Árið 1970 starfaði um fimmtungur vinnuafls þjóðarinnar við landbúnað en nú starfa þar um 2% vinnuaflsins. Framleiðslan hefur þó aldrei verið fjölbreyttari.
350 milljarða viðskiptavild …
Landbúnaðurinn nýtur velvilja þjóðarinnar, sem til skamms tíma lifði sjálf á fábrotnum sjálfþurftarbúskap. Velvildin kemur fram í verndartollum, styrkjum og bótum. Þó svo viðskiptavild greinarinnar hjá þjóðinni sé hvergi færð til bókar má varlega meta hana á um 350 milljarða.
… skilar um 30 milljörðum á ári
Aðrar atvinnugreinar eru skattlagðar fyrir not af auðlindum þjóðarinnar á meðan landbúnaður, sem nýtir víðfeðmar þjóðlendur fyrir sauðfjárbeit, fær árlega um 30 milljarða í styrki og tollvernd frá þjóðinni. Það er um 50% hærri upphæð en væntanlegt aðgangsgjald útgerða landsins að fiskimiðum þjóðarinnar.
Afturför í sauðfjárrækt
Þó svo sauðfjárrækt hafi tekið framförum á vissum sviðum hefur greinin, ólíkt öðrum greinum landbúnaðarins, staðið í stað eða þróast til verri vegar í mikilvægum málum:
Flækingsfé. Víða í sveitum vilja sauðfjárbændur fá að stunda landbúnað sinn í löndum annarra. Sauðfé er sett á flæking í byggð til að það dafni og þyngist í annarra manna löndum án leyfis. Þar veldur féð ómældum skemmdum á ræktun og eigum landeigenda.
Dýraníð. Flækingsfé í byggð nýtir þjóðvegina til ferðalaga og þar er keyrt á hundruð þeirra á hverju sumri. Sumt af búfénaðinum drepst strax en annað kvelst lengi til dauða. Það er ótrúlegt að slíkt árlegt fjöldadýraníð búfjár viðgangist hér á landi á 21. öldinni.
Ofbeit. Vegna langvarandi ofbeitar þurfa sumar þjóðlendur, sérstaklega á viðkvæmu gosbelti landsins, langtímafriðun fyrir sauðfjárbeit. Áfram er þó níðst á illa grónum þjóðlendum þótt nægt beitiland sé í byggð.
Þegnskylduvinna. Landeigendum sem verða fyrir heimildarlausri beit sauðfjár ber skylda til að smala ágangsfénu á haustin og skila í haustréttir eigenda þeirra, að viðlögðum sektum! Þannig er rányrkjan verðlaunuð með þegnskylduvinnu þeirra sem stolið er frá.
Ógagnsæi framleiðslunnar. Þeir mörgu sauðfjárbændur sem eru til fyrirmyndar í sínum búháttum njóta einskis umfram þá sem sleppa fé sínu í byggð eða á illa grónar þjóðlendur.
„Gæðastýring“
Árið 2003 var bryddað upp á langþráðri „gæðastýringu“ í sauðfjárrækt. Skattgreiðendur skyldu greiða um tvo milljarða á ári fyrir sjálfbæra landnýtingu sauðfjárbænda, bætta velferð kindanna þeirra og tryggari vörugæði. Þegar „gæðastýringunni“ var ýtt úr vör sagði Guðni Ágústsson þáverandi landbúnaðarráðherra: „Gæðastýring er kall tímans. Íslenskir bændur verða að skilja kall tímans um matvælaöryggi og neytendavernd. Íslenskur matvælamarkaður er hluti af alþjóðlegum matvælamarkaði og öflugasta vopnið í samkeppni við innfluttar vörur eru gæðin …“
Grænþvottur
Um „gæðastýringu“ gildir reglugerð nr. 511/2018. Ákvæðum hennar er þó ekki framfylgt, enda bendir hver á annan þegar kemur að eftirliti. Eftir tveggja áratuga stýringu ráðuneytisins á gæðum í sauðfjárframleiðslu er ekki farið að ákvæðum um lágmarksgæði beitarsvæða, heimildarlaus beit sauðfjár er viðvarandi í fjölda sveita, árlega er keyrt á hundruð kinda á þjóðvegunum, sauðfjárleit er nauðungarvinna í sveitum og lambakjöt án marktækrar vottunar. Alkunna er að „gæðastýring“ í sauðfjárframleiðslu, sem kostað hefur skattgreiðendur um 40 milljarða á núvirði, er móðir allra grænþvotta.
Úthaginn Ísland
Framkvæmd „gæðastýringarinnar“ endurspeglar þá skoðun innan Bændasamtakanna að allt Ísland, utan jökla og þéttbýla, sé réttmætur „úthagi“ fyrir sauðfé. Í þeim „úthaga“ skulu allir landsmenn glíma við að girða kindur úti – svo eigendur þurfi ekki að girða þær inni.
Almannahagsmunir
Langvarandi meðvirkni ráðuneytis landbúnaðarmála með vondum búháttum í sauðfjárframleiðslu þarf að ljúka. Slík meðvirkni er á kostnað sveitunga þeirra sem sleppa búfé sínu í byggð, vegfarenda, kindanna, illa gróinna þjóðlendna, góðra sauðfjárbænda, annarra greina landbúnaðarins, skattgreiðenda og neytenda.
Á árinu 2025 er „kall tímans“ að stjórnvöld styðji almannahagsmuni frekar en ósjálfbæra og yfirgangssama sérhagsmuni fárra.
Kristín er lögfræðingur. Ólafur er fv. prófessor LBHÍ. Ívar er skógarbóndi.