Alþjóðlega samsýningin Leiðir yfir land verður opnuð í dag, fimmtudaginn 3. júlí, kl. 17 í sýningarsal SÍM, Hafnarstræti 16, að því er kemur fram í tilkynningu. Listamennirnir á sýningunni eru Agnes Ársælsdóttir, Arnaud Tremblay og Nina Maria Allmoslechner. „Sýningin hverfist um sameiginlegt viðfangsefni listamannanna, tengsl við stað. Hvaða merkingu hafa tengsl og það að tilheyra umhverfi? Hvað kemur í ljós þegar hið náttúrulega og manngerða land mætast?“ Þá eiga verkin á sýningunni öll uppruna sinn í ferðalögum listamannanna um Suðurlandið síðastliðin tvö ár. „Frá ólíkum sjónarhornum, í gegnum ýmsa miðla, sögulegar heimildir og nýlegar rannsóknir, skoða listamennirnir hvernig umhverfi hefur áhrif á hversdaginn.“
Sýningarstjóri er Liisi Kõuhkna og grafískur hönnuður Andy Tremblay. Boðið verður upp á listamannaspjall föstudaginn 25. júlí en sýningin er opin fimmtudag til sunnudags frá 12 til 17.