Listakonurnar Anna Gulla Eggertsdóttir og Anna Wallenius opna sýninguna Laus við form (e. Free From Form) í Listasal Mosfellsbæjar í dag, föstudaginn 4. júlí, milli kl. 16 og 18. Í tilkynningu kemur fram að á sýningunni bjóði listakonurnar gestum að upplifa verk úr leir, stráum og ull. Þá séu verkin afrakstur samtala milli listamannanna um spennu, kynslóðaarf, þolmörk og framtíðardrauma. „Listakonurnar velta fyrir sér huldum öflum, inngrónum venjum og ímynduðum tálmum. Þannig er hinu ósýnilega gefið form. Laus við form inniheldur skúlptúra úr vír og rúgstráum sem svífa létt í lofti, leir sem brýst út úr forminu og veggverk sem finna ró í ringulreiðinni.“
Anna Gulla starfar sem þverfaglegur hönnuður og listamaður með aðsetur á Íslandi og í Svíþjóð en Anna Wallenius er hönnuður og keramíklistamaður. Hún er með sitt eigið keramíkstúdíó í Hvalfirði. Sýningin stendur til og með 1. ágúst.