— Morgunblaðið/Karitas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú er gert ráð fyrir að byggingarframkvæmdum við nýjan meðferðarkjarna og rannsóknarhús Landspítala við Hringbraut í Reykjavík ljúki fyrir lok árs 2028 og reikna má með að 1,5-2 ár líði þar til starfsemin verður komin í fulla virkni, þ.e

Guðmundur Sv. Hermannsson

gummi@mbl.is

Nú er gert ráð fyrir að byggingarframkvæmdum við nýjan meðferðarkjarna og rannsóknarhús Landspítala við Hringbraut í Reykjavík ljúki fyrir lok árs 2028 og reikna má með að 1,5-2 ár líði þar til starfsemin verður komin í fulla virkni, þ.e. á árunum 2029-2030.

Þetta kemur fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um mönnun og flæði sjúklinga á Landspítala, sem birt var í vikunni. Segir Ríkisendurskoðun að áætlanir um framkvæmd byggingarframkvæmdanna hafi ekki staðist. Fyrir sex árum, þegar framkvæmdir voru að hefjast, hafi verið gert ráð fyrir að meðferðarkjarninn yrði tekinn í notkun árið 2023.

Jafngamall öldinni

Aðdragandi byggingar nýs Landspítala er langur, raunar jafngamall öldinni, en segja má að upphafið hafi verið sameining Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítalans í mars 2000. Þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði árið eftir nefnd til að fjalla um og gera tillögu um framtíðaruppbyggingu Landspítalans og var niðurstaða hennar að heppilegast væri að sameina starfsemina á einni lóð við Hringbraut.

Á næstu árum var áfram fjallað um nýjan Landspítala og má geta þess að þegar íslenska ríkið seldi Landssímann árið 2005 var rætt um að hluti söluverðsins, sem var 66,7 milljarðar króna, jafnvirði um 180 milljarða á núverandi verðlagi, yrði notaður til byggingar nýs hátæknisjúkrahúss.

Árið 2005 var staðið fyrir hugmyndasamkeppni um skipulag Landspítalalóðarinnar og árið 2006 hófst formlega vinna við deiliskipulag nýs sjúkrahúss á lóðinni, drög að innra skipulagi nýs háskólasjúkrahúss voru lögð fram ári síðar og skýrslu um frumhönnun skilað árið 2008.

Hlé varð á þessari vinnu vegna efnahagshrunsins síðar það ár en árið 2009 var vinnan tekin upp að nýju og áform um uppbyggingu á svæðinu endurskoðuð. Byrjað var að undirbúa hönnunarsamkeppni árið 2009 og samkvæmt kostnaðarmati ráðgjafarteymis, sem annaðist forhönnun sjúkrahússins, var áætlaður kostnaður við nýtt sjúkrahús 82 milljarðar króna á verðlagi þess árs, sem svarar til um 160 milljarða króna á núverandi verðlagi.

Nýr Landspítali ohf.

Í nóvember 2009 var skipuð verkefnisstjórn vegna fjármögnunar Landspítala. Þá var gert ráð fyrir að framkvæmdir gætu hafist seint á árinu 2011 og stæðu fram á árið 2016. Árið 2010 var haldin hönnunarsamkeppni um nýjan Landspítala og síðar sama ár samþykkti Alþingi sérstök lög um opinbert hlutafélag, sem standa myndi að undirbúningi og útboði á byggingunni, Nýr Landspítali ohf. Þá var gert ráð fyrir að heildarkostnaður við verkið yrði um 51 milljarður króna, þar af um 33 milljarðar til nýbygginga og 7 milljarðar í tækja- og búnaðarkaup. Auk þess var gert ráð fyrir að 11 milljarðar króna færu í endurbætur á húsnæði spítalans við Hringbraut. Þetta svarar til um 96 milljarða króna á núverandi verðlagi.

Árið 2012 var lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi sem byggðist á verðlaunatillögunni frá 2010 og árið eftir voru skipulagsáætlanir samþykktar. Á þessum árum var talsverð umræða um hvort rétt væri að byggja nýjan spítala við Hringbraut og hvort velja ætti annan stað, en í skýrslu sem KPMG skilaði árið 2015 var niðurstaðan sú að ekki væri tilefni til að breyta fyrirliggjandi ákvörðun.

Sjúkrahótel reist

Framkvæmdir við nýtt sjúkrahótel, sem var fyrsti áfangi heildaruppbyggingar nýs spítala við Hringbraut, hófust árið 2016. Upphaflega var gert ráð fyrir að húsið yrði afhent vorið 2017 en tafir urðu á því. Hótelið var afhent formlega í byrjun árs 2019 og opnað síðar sama ár.

Byggingarframkvæmdir við nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut og rannsóknarhús fyrir rannsóknarstarfsemi spítalans og Háskóla Íslands hófust árið 2018 en fyrsta skóflustungan var tekin í október það ár. Þá kom fram að áætlanir gerðu ráð fyrir að byggingu spítalans yrði lokið árið 2024.

Meðferðarkjarni stækkaður

Jarðvinnu á lóð meðferðarkjarnans lauk árið 2020 og uppsteypa hússins hófst undir lok ársins. Þá kom fram að gert var ráð fyrir að heildarkostnaður við nýbyggingu meðferðarkjarnans yrði um 55 milljarðar króna, jafnvirði um 74 milljarða á núvirði, heildarkostnaður við þær fjórar nýbyggingar sem unnið væri að auk gatna- og lóðargerðar yrði um 80 milljarðar, jafnvirði 107 milljarða króna.

Þá hafði verið tekin ákvörðun um að stækka meðferðarkjarnann, stærstu byggingu verkefnisins, úr 53 þúsund fermetrum í 70 þúsund fermetra. Einnig höfðu verið gerðar kröfur til hússins um að standa af sér mun öflugri jarðskjálfta en almennt er gert í byggingarreglugerðum.

Í kynningarblaði Hringbrautarverkefnisins, sem kom út í apríl 2021, sagði að byggingin yrði tekin í notkun 2025-2026. Í desember 2023 sagði Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf., hins vegar við Morgunblaðið að húsinu yrði skilað útsópuðu á fyrsta ársfjórðungi 2027 í stað fjórða ársfjórðungs 2026 eins og áður var áætlað. Síðan þyrfti að undirbúa tæki og upplýsingatæknikerfi og flutninga á milli bygginga sem tæki 12-18 mánuði. Það sem hefði valdið töfum, sem væru óverulegar miðað við heildarstærð verksins, væri meðal annars framgangur hönnunar og þátttaka í útboðum.

Fram kom í kostnaðar- og tímaáætlun Nýs Landspítala í mars í fyrra að áfallinn kostnaður félagsins frá 2010-2023 næmi rúmlega 41 milljarði króna. Áætlaður kostnaður við Hringbrautarverkefnið á árunum 2024-2030 næmi 83,4 milljörðum, kostnaður við önnur verkefni, svo sem tæki og búnað og þróunarverkefni, næmi 38,3 milljörðum og kostnaður við önnur sérhæfð sjúkrahúsverkefni, stækkun Grensásdeildar og Sjúkrahússins á Akureyri, 15,5 milljörðum króna.

Svonefndur annar áfangi í heildaruppbyggingu húsnæðis fyrir Landspítala er enn í mótun en áætlað er að kostnaður við hann gæti numið 59-76 milljörðum króna.

Nýr Landspítali

Framkvæmdir ganga vel

Í framkvæmdafréttum Nýs Landspítala segir að í lok júní hafi verið góður gangur á framkvæmdum við meðferðarkjarna og verkefnið gangi samkvæmt áætlun. Mikil innivinna og frágangur sé á ýmsum svæðum. Uppsteypu á tengigangi á milli húss Heilbrigðisvísindasviðs HÍ og meðferðarkjarnans sé að mestu lokið. Vinna við uppsteypu á rannsóknarhúsinu gangi vel og í bílastæða- og tæknihúsi sé uppsetning flestra kerfa langt komin.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson