Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Góður gangur er í strandveiðunum þessa dagana og slagaði þorskaflinn upp í 9 þúsund tonn síðdegis í gær. Strandveiðimenn eru þess fullvissir að bætt verði í pottinn þegar 10 þúsund tonna hámarkinu verður náð.
Þorskaflinn hefur numið 638 tonnum á dag að meðaltali að undanförnu, og miðað við meðalverðið á þorskkílóinu hjá strandveiðiflotanum eru brúttótekjur af hverri veiðiferð 319 þúsund krónur, en veitt er í fjóra daga í viku hverri, mánudag til fimmtudags.
Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Bláa hagkerfisins, segir alvarlegt að verið sé að búa til tvö kerfi í fiskveiðistjórn, sóknarmark sem strandveiðiflotinn er undir og síðan aflamarkskerfi sem allir aðrir eru í.
Hann óttast að afleiðingarnar geti orðið neikvæð áhrif á alþjóðlegar vottanir eins og MSC og hjá fleiri alþjóðlegum stofnunum sem veitt hafa íslenskum sjávarútvegi jákvæðar vottanir og hælt honum fyrir góða stjórnun. „Það þykir mér alvarlegast í þessu,“ segir Svanur. » 2 og 12