Edda Ágústsdóttir fæddist í Reykjavík 28. október 1934. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Landspítalanum í Fossvogi 22. júní 2025.
Foreldrar Eddu voru Jóhann Björgvin Ágúst Jónsson frá Móum á Kjalarnesi, f. 24. júní 1904, d. 4. ágúst 1944, og Elín Fanný Friðriksdóttir frá Gröf í Vestmannaeyjum, f. 10. febrúar 1910, d. 28. nóvember 1997. Bróðir Eddu var Ágúst Jónsson Magnússon, f. 28. júní 1948, d. 6. október 2023.
Edda eignaðist Elínu Eddu Árnadóttur, f. 23. ágúst 1953, faðir hennar var Árni Þ. Árnason. Maki hennar er Sverrir Guðjónsson, synir þeirra eru Ívar Örn og Daði.
Árið 1957 gekk Edda í hjónaband með Kristjáni Samúel Júlíussyni sjómanni og smið, f. 14. nóvember 1923, d. 12. maí 2006. Þau eignuðust þrjú börn:
1) Katrín, f. 11. apríl 1958, dóttir hennar er Arna Eir. 2) Ágúst Rafn, f. 21. júní 1959, maki hans er Ágústa Kroknes, börn þeirra eru Árni Pétur, Edda Fanný og Eva Rún. 3) Kristján, f. 23. febrúar 1962, maki hans er Mihaela Kristjánsson og eiga þau eina dóttur, Helenu. Fyrir átti Kristján börnin Viktor Daníel og Birtu Dröfn.
Stjáni eiginmaður Eddu átti fyrir Mörtu SH, f. 11. september 1952, maki hennar er Guðjón Gestsson, dætur þeirra eru Rakel Rán og Sonja Sól.
Edda og Stjáni byggðu sér heimili í Glaðheimum 10 í Reykjavík, eftir mörg ár í Vogahverfinu fluttu þau í Rjúpufell og árið 2000 fluttu þau á Barðastaði í Grafarvogi, þar hefur Edda búið eftir andlát Stjána.
Á yngri árum starfaði Edda sem saumakona hjá Andrési. Síðar hóf hún störf við búningasaum á saumastofu Þjóðleikhússins og starfaði þar í áratugi, allt til 72 ára aldurs. List hennar fólst ekki einungis í búningunum sem hún skapaði, heldur því hvernig hún lagði alúð og nákvæmni í allt sem hún gerði.
Árið 1977 byggðu Edda og Stjáni sér sumarbústað í Kjós í Hvalfirði. Þarna vörðu þau flestum stundum á sumrin og á fjölskyldan margar dásamlegar minningar frá ævintýrunum í Glaðheimum. Glaðheimar voru ekki bara staður, þeir voru tilfinning, og þar voru Edda og Stjáni hjartað í öllu.
Edda lætur eftir sig fjögur börn, níu barnabörn og 17 barnabarnabörn.
Útför Eddu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 4. júlí 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.
Það eru Glaðheimar 1960, fyrsta úthverfi Reykjavíkurborgar, þar sem ungar fjölskyldur byggja upp ný hverfi. Edda er heimavinnandi og heimilisfaðirinn til sjós. Á þessum árum fengum við fisk í soðið og kjarngóðan, íslenskan mat.
Edda var býsna flinkur fatasaumari frá unga aldri. Hún saumaði öll föt á okkur systkinin og auk þess kjóla, kápur og dragtir fyrir sig sjálfa. Þessi kynslóð kunni svo sannarlega að bjarga sér. Á tímabili starfaði hún við klæðskerasaum hjá Andrési á Laugavegi. Síðar hefur Edda störf við saumastofu Þjóðleikhússins undir stjórn móður sinnar, Elínar Fannýjar Friðriksdóttur, sem var forstöðukona og búningameistari. Þar tók við nýr ferill, en þar starfaði Edda alla tíð, þar til starfsferlinum lauk.
Mín fyrstu uppvaxtarár ólst ég upp hjá móður minni og ömmu. Þegar ég var þriggja ára að aldri kom mikill öðlingsmaður inn í líf okkar, Kristján Samúel Júlíusson, sjómaður og smiður. Siðar varð hann sviðsmaður og leiktjaldasmiður á smíðaverkstæði Þjóðleikhússins, eftir að landfestum var náð.
Síðar á lífsleiðinni eignuðust þau aðra Glaðheima, sem urðu þeirra sumarland. Þar byggðu þau sitt sumarhús, græddu upp landið með blómum, trjám og syngjandi árnið. Þar var fegurð og frelsi á annan hátt en í borginni. Hvalfjörðurinn var og er sameiningartákn okkar, og stórfjölskyldunnar.
Við Edda móðir mín áttum afar gott samstarf í Þjóðleikhúsinu, eftir að ég lauk námi í leikmynda- og búningahönnun í Lundúnaborg. Hún var sérstaklega skilningsríkur fagmaður. Ég naut svo sannarlega góðs af því tengslaneti sem ég hafði í Þjóðleikhúsinu. Frá unga aldri nam ég listdans hjá Listdansskóla Þjóðleikhússins og tók þátt í uppsetningum, þekkti alla króka og kima og var eins og grár köttur að hnýsast á hinum ýmsu verkstæðum þessa einstaka húss.
En svo kemur að leiðarlokum. Við eldumst frá handverkinu þegar starfslokum er náð. Eftir að móðir mín lauk sínum starfsferli tók hún upp aðra iðju, sem kom mér á óvart. Í kjölfar láts Kristjáns fóstra míns einbeitti Edda sér að miklum prjónaskap rúmteppa, sem eru listaverk að mínu mati, og bera vott um ótrúlega færni og einstakt handverk hennar.
Móðir mín lifði sjálfstæðu lífi alla tíð. Eftir lát Kristjáns bjó hún ein og sá um sig sjálf að mestu leyti, en naut góðrar aðstoðar okkar í fjölskyldunni við það sem hún þurfti á að halda. Hún var flottur karakter, hafði skoðanir á því sem var að gerast í samfélaginu, var fordómalaus og hreinskilin. Hún fylgdist með leikhúsinu eftir sín starfslok, og gaf engan afslátt á gæðum eða sínum skoðunum.
Hvíl þú í friði, móðir mín, sem áttir gott líf þrátt fyrir heilsuáföll, sem þú alltaf tókst á við með reisn, nema að lokum sem ekki tók langan tíma að ganga í gegnum. Þú horfðist í augu við dauðann af æðruleysi og þú varst góð fyrirmynd okkar sem eftir lifum. Þú varst sjálfstæð allt þitt líf. Nú leyfi ég þér að njóta hvíldar í friði. Far vel, mín móðir, og sofðu rótt. Þú lifir í minningu minni, að eilífu. Amen.
Elín Edda Árnadóttir (Ella).
Þakklæti er mér efst í huga, þegar ég hugsa til tengdamóður minnar, Eddu Ágústsdóttur. Hún var góðum gáfum gædd, hreinskiptin, fordómalaus og fór ekki í launkofa með sínar skoðanir. Móðir Eddu, Elín Fanný Friðriksdóttir, varð ung ekkja og Edda föðurlaus níu ára gömul, og þurfti því fljótt að fara að bjarga sér. Það er óhætt að segja að báðar þessar konur, ásamt eiginkonu minni, Elínu Eddu Árnadóttur, séu afgerandi áhrifavaldar í mínu lífi.
Það verður seint fullþakkað hversu fallega, með opnum örmum, Edda og Kristján Samúel, tengdafaðir minn, tóku á móti sonum okkar, Ívari Erni og Daða. Þar voru alltaf allar dyr opnar, sem kom sér vel, þegar við stunduðum framhaldsnám og áttum heimili í London. Þá þurfti stundum að brúa bil að sumri til, og ekki amalegt fyrir strákana að fá tækifæri til þess að dvelja hjá afa og ömmu, í sumarhúsinu Glaðheimum í Hvalfirði. Þarna sköpuðu þau sitt sumarland, í skjóli fjalla við hafið, fjarri ys og þys borgarinnar, afi smíðaði og amma ræktaði garðinn við nið árinnar. Þarna gat stórfjölskyldan hist og notið samvista úti í guðsgrænni náttúrunni.
Eins ber að þakka fyrir þau tækifæri til faglegs samstarfs sem sköpuðust, í tengslum við þær sýningar sem ég tók þátt í hjá Þjóðleikhúsinu. Þar starfaði Edda, sem búningameistari, undir stjórn móður sinnar, sem var deildarstjóri búningadeildar Þjóðleikhússins til margra ára. Þegar að starfslokum kom var meiri tími fyrir sumarlandið, þar sem Stjáni var í stöðugri smíðavinnu, þar til hann lést, og Edda fegraði garðinn og allt sitt umhverfi.
Nú er komið að leiðarlokum og ekki aftur snúið. Það er óhætt að halda því fram að aldurinn hafi tekið sinn toll, sem Edda tókst á við með æðruleysi. Hún fylgdist ætíð vel með sínu fólki, og naut þess að taka á móti myndskilaboðum frá fjölskyldunni, heimshorna á milli. Þar gat hún fylgst nánar með börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Það var alltaf ánægjulegt að eiga samtal við Eddu. Hún hafði sterkar skoðanir og kom til dyranna eins og hún var klædd. Ég er þakklátur systkinunum fyrir það traust að fá að sitja með þeim, þegar Edda kvaddi á dánarbeði, í faðmi fjölskyldunnar, laust fyrir miðnætti, sunnudaginn 22. júní.
NÝR MÁNI
dumbrautt tunglið
hringsólar
í skugga jarðar
skiptir litum
svart á hvítu
í fyllingu tímans
andlit í augsýn
geislabaugur
hættuför aldanna
fæðing
nýr máni
(Sverrir Guðjónsson)
Ég kveð þig með söknuð í hjarta, kæra tengdamóðir.
Hringrás lífsins hefur sinn leyndardómsfulla gang.
Guð blessi Eddu Ágústsdóttur.
Sverrir Guðjónsson.
Elsku amma, það er ólýsanlega erfitt að sætta sig við að þú sért farin. Tilhugsunin um að geta ekki kíkt í heimsókn eða hringt í þig til að spjalla um daginn og veginn, eða heyrt hláturinn þinn, fyllir mig söknuði.
Fyrstu fjögur árin mín bjuggum við mamma hjá ömmu og afa í Rjúpufellinu og á hverju sumri eftir leikárið í Þjóðleikhúsinu brunuðum við upp í sumarbústað og nutum sumarsins þar.
Um leið og við lögðum af stað upp í bústað var farið í leik, við reyndum að spá fyrir um hvenær við yrðum komin og hvar við yrðum stödd eftir ákveðinn tíma. Við amma sömdum leikreglurnar og afi, sem var bílstjórinn, átti að fylgja þeim. Ég hef þau þó sterklega grunuð um brögð í tafli, því ég vann alltaf.
Í Glaðheimum var dásamlegt að vera. Dagarnir byrjuðu með snúsnú-graut, sem flestir kalla hafragraut en ekki amma mín. Það þurfti nefnilega ákveðna tækni og pottþétt leynihráefni til að hafragrauturinn yrði að snúsnú-graut. Að því loknu spiluðum við amma kleppara með mikilli innlifun og gleði, afi flúði iðulega út í skemmu meðan á þessu stóð. Eftir spilið vorum við tilbúnar í daginn. Það voru algjör forréttindi að verja svona miklum tíma með ömmu og afa, fyrir vikið vorum við afar náin. Margar af mínum dýrmætustu æskuminningum eru frá tímanum í Hvalfirðinum.
Amma og afi unnu bæði í Þjóðleikhúsinu, amma við búningasaum og afi við leikmyndasmíði. Ég fékk oft að fylgja þeim í Þjóðleikhúsið, sem ég upplifði sem algjöran ævintýraheim. Ég man eftir sýningum þar sem við sátum saman og amma hvíslaði að mér hvaða búninga hún hafði saumað. Það var ótrúlegt að sjá búningana hennar lifna við á sviðinu.
Amma var ekki einungis góð að sauma, það lék allt í höndunum á henni. Hún bakaði bestu frönsku súkkulaðikökuna, eldaði besta matinn og prjónaði af einstakri list.
Lífið færði ömmu líka áskoranir, hún missti afa fyrir 19 árum og það var erfitt. Hún sigraðist í tvígang á brjóstakrabbameini en aldrei kvartaði hún. Hún tókst á við áskoranir af æðruleysi og seiglu. Amma var ótrúlega sterkur karakter, þolinmóð, hugrökk og algjör nagli.
Samband okkar ömmu var alltaf náið og einstakt. Hún var ekki aðeins amma mín, hún var aukamamma, trúnaðarvinur og dýrmæt vinkona. Þegar Katrín Alma fæddist varð tenging okkar enn dýpri. Amma sá ekki sólina fyrir Katrínu Ölmu og hringdi oft einungis til að fá fréttir af henni. Það var ómetanlegt að fylgjast með samskiptum þeirra tveggja, hvort sem þær voru í koddaslag, spjalli eða leik.
Amma Edda var með einstakan húmor og það var alltaf stutt í brosið. Hláturinn hennar var svo smitandi og hann lýsti upp allt rýmið, þú heyrðir hann ekki bara, þú fannst hann.
Nú er komið að því að fylgja þér síðasta spölinn. Það verður erfitt, en í hjarta mínu geymi ég ógrynni minninga og þær gleðja mikið, en á sama tíma fylgir þeim líka sár söknuður.
Ég er þakklát fyrir þig alla daga, þakklát fyrir ástina, samveruna, spjallið, sögurnar, stuðninginn, þolinmæðina, matinn, kökurnar, hláturinn og húmorinn.
Hvíl í friði elsku amma, ég elska þig upp í Hvalfjörð og til baka.
Arna Eir.
Brosið, hnyttni hláturinn og hreinskilni þín í samskiptum eru það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa til baka. Þar á eftir „sumó“ í Hvalfirðinum, Glaðheimar, svæðið sem þú ræktaðir upp með afa Stjána og leyfðir okkur barnabörnunum ávallt að vera með ef okkur langaði. Þegar við vorum með of mikil læti þá voru það skýr skilaboð sem komu frá þér um að koma okkur út að leika eða fara út í fjöru. Þar gleymdum við okkur, þar til það var kallað á okkur út um grundir að maturinn væri klár. Fulldekkað borð, hvort sem það var kaffitími, fiskibollur eða rauður grautur, sem sum barnabarna þinna tala ennþá um í dag.
Það var agi í kringum ömmu, og líka ást og hlýja, og ávallt nóg að borða. Það er sárt að missa þig en þegar ég lít til baka sé ég hversu stór og mikilvægur þáttur í mínu lífi þú varst, og ert enn. Því minningin um þig mun lifa áfram um aldur og ævi í hjarta þeirra sem kynntust þér.
Þú varst mjög nýjungagjörn, varst fyrst komin með farsíma af öllum og settir upp vindmyllu með afa til að framleiða rafmagn. Ég meira að segja gat „snappað“ og notað ýmis samskiptaforrit til að vera í sambandi við þig frá Noregi. Ég er sérstaklega glaður yfir því að þú hafir náð að hitta yngstu dóttur mína, Evýu Weru, og alla þá hlýju og ljós sem þú sendir henni. Takk fyrir það og allar góðu minningarnar. Það var kominn tími til að þú fengir að sameinast afa Stjána. Þú hefur staðið þig svo vel í ellinni.
Þinn litli grallari,
Ívar Örn.
Það er erfitt að þurfa að kveðja þig elsku amma mín.
Við þessi tímamót vakna ótalmargar ljúfar endurminningar sem ég er svo þakklátur fyrir. Mín fyrsta minning er ríkulega skreytt jólatréð heima hjá ykkur í Rjúpufellinu, marglitu ljósin og þessi óskaplega spennandi Andrés Önd, sem hékk þarna á grein yfir pökkunum. Allar ferðirnar í „sumó“ í Hvalfirðinum, þar sem við bræðurnir fengum að leika okkur í guðsgrænni náttúrunni í lautinni góðu, og smíða báta sem runnu niður lækinn.
Þú fórst oft með okkur niður í fjöru þar sem þú kenndir okkur að fleyta kerlingar, og þú varst ekkert smá góð í þessum leik! Það skipti engu máli hvernig steinarnir voru í laginu eða hversu stórir þeir voru, alltaf tókst þér að láta þá skoppa nokkrum sinnum á haffletinum. Ég skil ekki ennþá hvernig þú fórst að þessu.
Snúsnúgrauturinn var líka eitt annað töfrabragð sem þú hristir fram úr erminni á morgnana, alveg ótrúlega góður hafragrautur sem einhvern veginn náði að fljóta ofan á mjólkinni og snúast í hringi! Þú varst ekki mikið fyrir nákvæmar uppskriftir heldur réð tilfinningin og flæðið ferðinni. Ef maður bað um nákvæmari mælingu var svarið einfalt: bara slatti af salti, hæfilega mikið af vatni og mjólk, og hátt upp í þó nokkuð af höfrum. Einum af frösunum þínum uppi í sumó er erfitt að gleyma. Ef við bræðurnir gleymdum að loka á eftir okkur á leiðinni út kallaðir þú alltaf á eftir okkur: „Eruð þið að kynda hjá Gísla á Hálsi?“ Þessi yndislegi sumarbústaður hét ekki Glaðheimar að ástæðulausu.
Okkur fannst alltaf svo gaman að geta heimsótt þig á saumastofuna í Þjóðleikhúsinu, og alltaf tókstu svo vel á móti okkur, fengum að sjá hvaða búninga þú varst að vinna við, á meðan við fengum létta hressingu. Það fylgdi þér alltaf svo mikil gleði og húmor, þú nenntir ekkert að velta þér upp úr vandamálum eða veikindum annarra, vildir heldur fá fréttir af einhverju jákvæðu og skemmtilegu. Þú tókst alltaf vel í það að verða okkur að liði, og saumaðir til dæmis gardínur fyrir nýja barnaherbergið hennar Sólrúnar okkar, og konsertskyrtu fyrir útskriftartónleikana mína í píanónáminu. Þú hafðir alltaf tíma fyrir okkur barnabörnin og barnabarnabörnin, þreyttist aldrei á því að spyrja frétta og fylgjast með okkur á „snapchat“. Hvíl þú í friði elsku amma mín, þín verður sárt saknað.
Þinn dóttursonur,
Daði.
Við vitum fátt en skiljum máski
minnst
hvað mannsins sorgir eiga helst
að þýða
en löngum koma og fleiri en okkur
finnst
í fljótu bragði – þegar árin líða.
En eitt er víst að alltaf skúr og skin
mun skiptast á í lífi allra manna.
Og þó sé sárt að gráta góðan vin
er gott að dvelja í heimi
minninganna.
(JB)
Við þökkum Eddu fyrir samfylgdina.
Innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda.
Róbert og Hildur.