Hveragerði Horft yfir bæinn. Hótel Örk og N1 eru fremst á myndinni.
Hveragerði Horft yfir bæinn. Hótel Örk og N1 eru fremst á myndinni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alls 429 umsóknir bárust um lóðir fyrir sérbýli í Tröllahrauni, nýju hverfi í Hveragerði, en ellefu voru dregnir úr pottinum í gær. „Eftir­spurnin var mikil og áhuginn sömuleiðis,“ segir Pétur G. Markan bæjarstjóri í Hveragerði í samtali við Morgunblaðið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Alls 429 umsóknir bárust um lóðir fyrir sérbýli í Tröllahrauni, nýju hverfi í Hveragerði, en ellefu voru dregnir úr pottinum í gær. „Eftir­spurnin var mikil og áhuginn sömuleiðis,“ segir Pétur G. Markan bæjarstjóri í Hveragerði í samtali við Morgunblaðið. Tröllahraun er syðst og vestast í Hveragerði; á vinstri hönd þegar ekið er niður Kambana. Á þessum slóðum hefur mikið verið byggt á síðustu árum og í daglegu tali er byggð þessi nefnd Kambaland.

„Að fá vel á fimmta hundrað umsóknir var miklu meira en reikna mátti með en má segja að sé í anda þess sem við upplifum: það er byr með bænum. Í haust stefnum við að því að úthluta þarna þrettán lóðum og þrettán á næsta ári,“ segir bæjarstjórinn. Bendir á að þarna sé svarað eftirspurn víða frá eftir sérbýlishúsalóðum, það er einbýli, par- og raðhús. Slíkar lóðir séu tæpast í boði á höfuðborgarsvæðinu, nema þá fyrir geipifé. Í Hveragerði sé verðið fleirum viðráðanlegt. Þá sé byggingarsvæðið við Kamba í góðum tengslum við einstakt umhverfi og stutt sé í alla þjónustu.

„Hér leggjum við áherslu á að gæði og magn fari saman. Við höldum sögulegri uppbyggingu áfram og margt er í farvatninu hér,“ segir Pétur í Hveragerði. Þar búa nú 3.402 manns og fjölgar hratt.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson