Perlan Hér má sjá nýlega viðbyggingu við Perluna en húsnæðið verður nýtt undir nýja eldgosasýningu. Húsnæðið er hugsað sem tímabundin lausn.
Perlan Hér má sjá nýlega viðbyggingu við Perluna en húsnæðið verður nýtt undir nýja eldgosasýningu. Húsnæðið er hugsað sem tímabundin lausn. — Morgunblaðið/sisi
Ingimundur Sveinsson, arkitekt og maðurinn sem teiknaði Perluna, eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur, segir í samtali við Morgunblaðið að hann hefði kosið að nýlegri viðbyggingu sem hefur verið reist við Perluna hefði verið sleppt

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Ingimundur Sveinsson, arkitekt og maðurinn sem teiknaði Perluna, eitt af helstu kennileitum Reykjavíkur, segir í samtali við Morgunblaðið að hann hefði kosið að nýlegri viðbyggingu sem hefur verið reist við Perluna hefði verið sleppt.

Hann hafði fengið veður af byggingunni frá forsvarsmönnum Perlunnar áður en hún reis þó svo að hann hafi ekki gert sér ferð á staðinn og skoðað hana í návígi. Ingimundur hefur þó séð bygginguna úr fjarlægð.

„Ég er nú ekki hrifinn af þessu en mér skilst að þetta sé nauðsynlegt fyrir reksturinn,“ segir Ingimundur.

Færanlegt húsnæði

Viðbyggingin er hugsuð sem tímabundin lausn til næstu ára. Um er að ræða færanlega stálgrindareiningu sem er ótengd við jörðu. Húsnæðið verður nýtt sem sýningarrými vegna eldfjallasýningar sem stendur til að opna í Perlunni á næstunni og ber nafnið Into the Volcano.

„Mér finnst þetta nú ásættanlegt ef þetta er bara tímabundið,“ segir Ingimundur um viðbygginguna.

Geta upplifað Geldingadali

Á sýningunni býðst gestum að upplifa eldgosið við Geldingadali sem braust út á Reykjanesskaga árið 2021 en hugmyndin að sýningunni fæddist í janúar í fyrra.

Í kaupsamningnum eru meðal annars kvaðir um að Perlan skuli nýtt undir afþreyingartengda starfsemi auk þess sem grunnskólabörn í Reykjavík fái að koma í skipulagðar heimsóknir í náttúrusafn Perlunnar tvívegis á skólagöngu sinni, án endurgjalds.

Þess ber að geta að kaupsamningur á milli Reykjavíkurborgar og Perlunnar þróunarfélags ehf. vegna kaupa félagsins á Perlunni var undirritaður í viðbyggingunni.

Höf.: Birta Hannesdóttir