Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Ég get ekki svarað því,“ segir Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans í samtali við Morgunblaðið, en hann var spurður hvort þess væri að vænta að fjárveiting ríkisins til lyfjakaupa yrði hækkuð á þessu ári.
Í Morgunblaðinu fyrr í vikunni kom fram að útlit væri fyrir að Landspítalinn þyrfti að handvelja sjúklinga til lyfjameðferðar, þar sem fjármuni skortir til að unnt verði að tryggja aðgengi að nýjum lyfjum og skv. minnisblaði frá spítalanum kemur fram að fjárveiting til málaflokksins þyrfti að aukast um tæpan 2,1 milljarð króna á þessu ári til þess að tryggja megi sjúklingum viðeigandi meðferð.
„Þessi leyfisskyldu lyf eru stór útgjaldaliður ríkisins og það hafa orðið miklar framfarir í lyfjameðferð við alvarlegum sjúkdómum á liðnum árum og þau lyf eru jafnan mjög dýr. Ef við horfum á þróunina síðustu ár þá er ákveðin aukning á milli ára og fjárveitingin sem við fengum fyrir þetta ár er ófullnægjandi til að ráða við þá fyrirsjáanlegu útgjaldaaukningu sem mun eiga sér stað vegna innleiðingar nýrra lyfja,“ segir Runólfur.
„Það má ekki gleyma því að kostnaðaraukinn af lyfjum sem hafa verið innleidd á síðustu 2-3 árum kemur oft ekki fram fyrr en næstu ár á eftir. Það er aukning um allt að 10% á milli ára, en fjárveitingin sem við fengum til þessa fjárlagaliðar er langt undir því. Það gerir að verkum að við erum ekki með fjármuni til að standa straum af kostnaði við þessi lyf. Við erum að leita leiða í samtali við heilbrigðisyfirvöld hvernig við getum ráðið bót á þessu,“ segir Runólfur.
Hann bendir á að ekki sé farið að reyna á lyfjaskort enn, enda árið rétt hálfnað.
„En okkur ber að halda okkur innan fjárlaga og þess vegna gæti skapast vandamál þegar líður á árið varðandi innleiðingu nýrra lyfja og jafnvel að hefja meðferð með dýrum lyfjum sem þegar hafa verið innleidd. Þetta gæti skapað vanda, en við eigum regluleg samskipti við heilbrigðisyfirvöld varðandi þetta, því þetta skiptir mjög miklu máli,“ segir Runólfur.
Lagt yrði mat á viðeigandi lyfjameðferð fyrir sjúklinga í hverju tilviki.