Framkvæmdir Verklag við yfirborðsmerkingar virðist með ólíkum hætti eftir því hvort um er að ræða þjóðvegi eða götur í umsjón borgarinnar.
Framkvæmdir Verklag við yfirborðsmerkingar virðist með ólíkum hætti eftir því hvort um er að ræða þjóðvegi eða götur í umsjón borgarinnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Það hefur vakið athygli íbúa í Reykjavík að yfirborðsmerkingar á götum borgarinnar eru víða farnar að hverfa eða ósamræmi er í útliti. Í þessu samhengi hefur einnig verið vakin athygli á verklagi Vegagerðarinnar, en samkvæmt upplýsingum frá…

Matthías Johannessen

mj@mbl.is

Það hefur vakið athygli íbúa í Reykjavík að yfirborðsmerkingar á götum borgarinnar eru víða farnar að hverfa eða ósamræmi er í útliti. Í þessu samhengi hefur einnig verið vakin athygli á verklagi Vegagerðarinnar, en samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni eru skýrar verklagsreglur og samningar við verktaka þegar kemur að yfirborðsmerkingum á þjóðvegum og þjóðvegum í þéttbýli á þeirra vegum.

Samkvæmt Vegagerðinni eru tveir verktakar með samninga um yfirborðsmerkingar, og sérstakar reglur gilda um málun eftir nýmalbikun. Eftirlit er hluti af útboðsskilmálum, og fylgt er reglugerð um umferðarmerki sem ætlað er að tryggja samræmi og gæði merkinga. Þá bera þeir sem sjá um malbikun jafnframt ábyrgð á að merkingar séu rétt framkvæmdar í framhaldi af verkinu.

„Við reynum að merkja eins fljótt og auðið er en auðvitað þarf að gæta skynsamlegrar nýtingar fjármuna,“ segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, en bendir jafnframt á að veður geti haft áhrif á tímasetningar.

Á sama tíma hafa komið fram ábendingar frá íbúum um að framkvæmdir í borginni, bæði hvað varðar yfirborðsmerkingar og malbikun, megi víða bæta. Þá hefur meðal annars verið bent á að nýtt malbik á köflum stendur hátt upp úr því eldra sem getur valdið ójöfnu á yfirborði. Vegagerðin bendir á að slíkar blettaviðgerðir séu oft notaðar sem tímabundið úrræði til að bæta ástand vega þegar ekki er ráðist í heildarmalbikun, enda dugi fjármunir ekki alltaf til stærri framkvæmda.

Af þessum samanburði má ráða að verklag við yfirborðsmerkingar og malbikun virðist með ólíkum hætti eftir því hvort um er að ræða vegi á vegum Vegagerðarinnar eða götur í umsjón borgarinnar. Íbúar og hagsmunasamtök hafa ítrekað kallað eftir auknu samræmi og skýrari upplýsingum um verklag og áætlanir þegar kemur að þessum framkvæmdum innan borgarinnar.

Höf.: Matthías Johannessen