Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Repúblikanar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykktu í gærkvöldi frumvarp til fjáraukalaga, sem fengið hefur viðurnefnið „stóra fallega frumvarpið“, þar sem í því hafa verið sett saman flest af helstu áherslumálum Trumps Bandaríkjaforseta í innanríkismálum. Var frumvarpið samþykkt með 218 atkvæðum gegn 214.
Deildin fundaði í alla fyrrinótt án þess að slíta fundi, en innanflokksdeilur meðal repúblikana um innihald frumvarpsins urðu til þess að fresta varð atkvæðagreiðslu um málið þar til ljóst var að meirihluti væri í höfn. Reyndust helstu andstæðingar frumvarpsins meðal meirihlutans fulltrúarnir Thomas Massie frá Kentucky, sem tilheyrir frjálshyggjuvæng flokksins, og Brian Fitzpatrick frá Pennsylvaníu, sem var ósáttur við að ekki væri gert ráð fyrir stuðningi við Úkraínu í frumvarpinu. Massie greiddi á endanum atkvæði gegn frumvarpinu en Fitzpatrick ákvað að samþykkja það.
Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni, fékk orðið laust fyrir klukkan fimm um morgun að staðartíma, en samkvæmt reglum deildarinnar hafa leiðtogar flokkanna ótakmarkaðan ræðutíma. Talaði Jeffries í átta klukkutíma og 44 mínútur til þess að tefja atkvæðagreiðslu um málið, og var það lengsta þingræðan í fulltrúadeildinni.
Sló Jeffries þar fyrra met, sem Kevin McCarthy, þáverandi leiðtogi repúblikana í deildinni, setti við svipað tækifæri árið 2021. Hallmælti Jeffries þar frumvarpinu, sem hann kallaði „stóra ljóta frumvarpið“, og sagði það draga úr lífsgæðum almennings í Bandaríkjunum. Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar og leiðtogi repúblikana, sagði hins vegar í kjölfar ræðu Jeffries að frumvarpið boðaði nýtt upphaf fyrir alla Bandaríkjamenn. „Þetta frumvarp er fyrir þig.“
Samþykkt frumvarpsins þykir mikill sigur fyrir Trump Bandaríkjaforseta, sem hafði óskað eftir því að getað undirritað það í lög í dag, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna.
Ekki eru þó allir repúblikanar sáttir við frumvarpið, en gert er ráð fyrir að það muni bæta um 3,4 billjónum bandaríkjadala, eða rúmlega 410.000 milljörðum íslenskra króna, við þjóðarskuldir Bandaríkjanna.
Auðkýfingurinn Elon Musk, sem hætti fyrr á árinu sem ráðgjafi Trumps, hefur til að mynda lagst hart gegn samþykkt þess, sér í lagi þar sem það stöðvar skattaafslátt til þeirra sem kaupa sér rafbíla, á sama tíma og Musk segir að það muni bæta óhóflega við skuldir bandaríska alríkisins.
Hefur Musk heitið því að hann muni styðja við aðra frambjóðendur í forkosningum hjá öllum þeim þingmönnum sem samþykktu frumvarpið, þar sem þeir hefðu heitið því í kosningabaráttunni að draga úr útgjöldum ríkisins, og síðan greitt atkvæði með „mestu skuldasöfnun sögunnar“.
Þá hefur Musk lýst því yfir að hann muni beita sér fyrir stofnun þriðja stjórnmálaflokksins til höfuðs Repúblikanaflokknum. Óvíst er þó hvaða bolmagn Musk hefur til þess að ógna flokknum, en „þriðju flokkar“ hafa sjaldnast fagnað miklu fylgi í bandarískum stjórnmálum.