Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði við Donald Trump Bandaríkjaforseta í gær að Rússar myndu ekki gefa eftir nein af stríðsmarkmiðum sínum í Úkraínu á sama tíma og hann sagði Rússa reiðubúna til frekari viðræðna við Úkraínumenn.
Forsetarnir ræddust við símleiðis í gær, og stóð símtalið yfir í næstum því klukkustund. Sagði Pútín þar að taka þyrfti á „rótum þess sem hefði leitt til núverandi ástands“.
Þá sagði Pútín að Rússar vildu áfram leita pólitískrar lausnar á deilunni, en Rússar hafa hingað til neitað að blása til vopnahlés til þess að greiða fyrir friðarviðræðum. Forsetarnir ræddu einnig ástandið í Mið-Austurlöndum og hvatti Pútín þar til friðsamlegra lausna.