Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Fyrir nokkrum árum prédikaði Guðni Ágústsson í Dómkirkjunni á uppstigningardegi, sem er dagur eldra fólks í kirkjunni. Guðna mæltist vel sem vænta mátti og vísa fæddist hjá séra Hjálmari Jónssyni:
Það sem Guðni gerir best
gleður þjóðarmúginn.
En þar fór efni í afbragðsprest
algjörlega í súginn.
Davíð Hjálmar Haraldsson er í sumarskapi:
Hásumar ríkir og hamingjan ein,
ég hlæ og ég raula og tala.
Og ég er svo frjáls eins og fuglinn á grein.
Ég fer upp í birki og gala.
Jón Arnljótsson er ánægður með veðrið:
Fyrirbæri birtu veitir,
bæði skín á mó og tún.
Gettu hvað það gula heitir,
sem gægist yfir fjallabrún.
Gunnar J. Straumland yrkir um „álitsgjafann“:
Sá er allt um ekkert veit,
allt það færði í letur.
Ekkert veit en allt um reit,
enginn veit þó betur.
Benedikt Jóhannsson kjarnar málið:
Allt fer sem fer,
fer sinn veg.
Allt er sem er
einnig ég.
Eyjólfur Ó. Eyjólfsson bregður á leik í limru:
Ein limra í myrkrinu lá
og leiddist heil ósköp en þá
stíg ég úr fleti
með stunum og freti
og hún stekkur mig samstundis á.
Jens Sæmundsson orti á sínum tíma:
Þó ég hafi tekið túr
og teyg mér drjúgum fengið,
svona hef ég aldrei úr
öllu lagi gengið.
Þá Jón Jónatansson á Máskeldu:
Kaffið góða styttir stund
og stórum gleður,
örvar blóðið, eggjar lund
en engan seður.
Pétur Stefánsson hefur sínar skoðanir á svarta drykknum:
Obbólítinn óð ég kveð
afar skýr í kolli:
„Árla morguns gleður geð
góður kaffibolli.“