Þorsteinn Valur Baldvinsson
Fjölmörg fyrirtæki eru með mannauðsstjóra í starfi og/eða kaupa slíka þjónustu hjá fólki, menntuðu á sviði mannauðs.
Það vekur æ meiri furðu hvað þetta starfsheiti virðist oft vera öfugmæli, þetta sérmenntaða fólk virkar flest á mig sem útfararstjórar mannauðs fyrirtækja, ákvarðanir virðast oft byggðar á kenningum, tilfinningum og aldursfordómum frekar en rökhugsun.
Fjölmargir starfsmenn eru látnir fara frá fyrirtækjum með þeim röksemdum að ákveðnum aldri sé náð, áratuga reynsla, menntun eða uppsöfnuð þekking upp á tugi milljóna skiptir allt í einu engu máli fyrir fyrirtækin, heilsuhreysti og tryggð er einskis metin lengur.
Þetta einkennir frekar stærri fyrirtækin þar sem stjórnendur eru ekki þeir sem byggðu upp reksturinn, eru flestir menntaðir stjórnendur sem vita ekki hvað sigg er.
Með alla þessa menntuðu verkfræðinga og viðskiptafræðinga í störfum hjá atvinnulífinu gæti maður ályktað að ákvarðanir yrðu vitrænni og fyrirtækin færu að skoða betur í hverju verðmæti liggja: byggingar, búnaður og tæki eru dautt dót sem má kaupa, selja, leigja og afskrifa eftir hentugleika en hinn raunverulegi auður í mannshuganum er einstök auðlind og aldrei eins.
Margir stjórnendur eru óhæfir í starfi og komast upp með að loka á framlag einstakra starfsmanna sem eru kannski ekki skemmtikraftar en hafa rök- og nýsköpunarhugsun sem og frumkvæði til að bera. Fyrir sumum eru þessir einstaklingar ógnun við starfsöryggi þeirra og sæta því einelti og útilokun.
Það segir sig sjálft að það að slökkva á fjórum af tíu tölvum fyrirtækis er ekkert annað en skemmdarverk á innviðum og rýrir verðmætasköpun verulega, samt eru óhæfir stjórnendur mjög víða látnir komast upp með svona vinnubrögð.
Hluthafar og stjórnendur fyrirtækja og stofnana ættu að gera skýrar kröfur um rök að baki breytingum í starfsmannahaldi, láta kortleggja þekkinguna og reynsluna og láta virkja alla þá huga sem hjá þeim starfa til að nýta raunverulegan mannauð sem og gefa starfsfólki kost á að koma sínum skoðunum og ábendingum á framfæri.
„Ráðfærðu þig ekki við ótta þinn heldur vonir þínar og drauma. Hugsaðu ekki um gremju þína, heldur um óuppfyllta möguleika þína. Hugsaðu þig ekki um það sem þú reyndir og mistókst heldur af því sem er enn mögulegt fyrir þig að gera.“ (Jóhannes páfi XXIII)
Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri Lifðu núna, skrifar:
„Bresku mannauðsstjórarnir töldu sömuleiðis að eldra starfsfólk væri afkastaminna en þeir yngri, en í samanburðarrannsókn á vegum breskra heilbrigðisyfirvalda reyndist aldurshópurinn 65-80 ára bæði afkastameiri og áreiðanlegri í vinnu en samstarfsmenn þeirra á aldrinum 20-31 árs. Það kom einnig í ljós að hinir eldri voru almennt í betra jafnvægi og sköpuðu mun þægilegri vinnuanda en hinir yngri. Það stangast allverulega á við þær hugmyndir mannauðsstjóranna að eldri starfsmenn séu almennt ergilegir og líklegir til að skapa leiðindi.“
Höfundur er sjálfstætt starfandi.