Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Verði af auknum skattaálögum, t.a.m. veiðigjöldum, er raunveruleg hætta á að almennir fjárfestar gerist fráhverfir og lífeyrissjóðir landsins einnig.

Sveinn Óskar Sigurðsson

Á sjávarútvegsráðstefnunni í Barcelona nýlega mátti sjá að fiskeldinu virðist vera að vaxa fiskur um hrygg. Greinin virðist eina svarið við annars miklum ágangi í fiskistofna sjávar, m.a. innan ESB, sem ríkisstyrkir ofveiðar. Hins vegar virðast stofnar við strendur Íslands nokkuð sterkir enda hefur okkur Íslendingum lánast að stunda hér við land sjálfbærar veiðar. Hvalnum virðist þó fjölga og er hann nú farinn að ógna lífríkinu, þ.e. fiskistofnum við strendur landsins. Gísli heitinn Víkingsson, fiski- og hvalasérfræðingur og sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, áréttaði þessa áhættu ítrekað. Hvalurinn er einnig farinn að valda árekstrum við fiskiskip og ferjur við Ísland.

„Hvalir og selir virtust höfða mjög til almennings á Vesturlöndum og varð baráttan gegn veiðum á sjávarspendýrum því ein helsta tekjulind umhverfisverndarsamtaka. Hvalurinn varð þannig smám saman eitt helsta einkennistákn fyrir umhverfisvernd.“ (Sjómannablaðið Víkingur, 1. tbl. 2000, Gísli Víkingsson)

Þar áréttaði Gísli að fremur hefði það verið tilfinningahiti sem réð ferðinni en skynsemi. Með fjölstofnarannsóknum mátti síðar greina, m.a. þar sem tekið var tillit til hvaða orkuþörf hvert spendýr, þ.e. hvalur, þurfti að uppfylla, að um afrán var að ræða. Þá var metið að hvalir ætu um sex milljónir tonna af sjávarfangi við strendur Íslands, þar af hrefna tvær milljónir tonna.

Við mennirnir erum ágengir og það á við bæði um skatta og nytjar. Hins vegar búum við yfir hæfileikum til að leita lausna og hér er ein reifuð með fullri virðingu fyrir því ferli sem nú er í gangi á Alþingi Íslendinga. Það er skiljanlegt að þar vilji menn ekki hætta á að glata tækifærum með auknum skattaálögum. Vítin eru til að varast þau.

Gerum við ráð fyrir að ávöxtunarkrafa eigin fjár í sjávarútvegi og fiskeldi nemi um 15% að vegnu meðaltali (gefin stærð með fyrirvara, þó talin fremur hógvær m.t.t. áhættu) og að við notum rauntölur úr rekstri fyrirtækja í þessum atvinnugreinaflokkum (03 og 102, skv. ÍSAT2008), sem sýna 2,5-3% vexti á vaxtaberandi skuldir að meðaltali á árabilinu 2002-2023 (Hagstofa Íslands 2025), má sjá, sé litið til skuldahlutfalls, að veginn fjármagnskostnaður (WACC) lá á þessu árabili á bilinu 5,7%-6,4%. Reiknaður efnahagslegur ábati þessara greina á þessu tímabili (EVA – Economic Value Added), þ.e. að framangreindu gefnu, nam að meðaltali –30 milljörðum króna á ári sé miðað við framangreint. Setjum við ávöxtunarkröfuna í 10% nemur þetta –4 milljörðum króna á ári, þ.e. virði framleiðslunnar er lægra en fjármagnsins sem lagt er fram. Krafan þarf að fara niður í 9,28% svo þetta sé á pari. Geta þessar greinar tekið við meiru? Er hægt að auka álögurnar frekar á sjávarútveginn?

Séu álögur auknar á greinar sem reiða sig á að sækja fjármagn til vaxtar út til fjárfesta og fjármálafyrirtækja á markaðnum getur það reynst dýrkeypt. Um þessar mundir eru sjávarútvegsfyrirtæki komin á hlutabréfamarkað og lífeyrissjóðir hafa fjárfest þar ásamt öðrum er hafa trú á að áframhaldandi stöðugleiki ríki í þessari grein, sjávarútvegi, og að sjá megi vöxt fram undan í fiskeldi. Þessar fjármálavörur, ef svo má kalla hlutabréf í sjávarútvegstengdum greinum, geta reynst lífeyrissjóðum afar hagkvæm fjárfesting til að mæta sveiflum á mörkuðum til framtíðar, en þær sveiflur gætu farið í gagnstæðar áttir við sjávarútveginn. Við sáum það á covid-tímanum að það raungerðist.

Væri ekki nær að skoða við hvaða ávöxtunarkröfu ætti að miða en að fara svo bratt í skattlagningu með veiðigjaldi? Verði efnahagslegur ábati í rekstri fyrirtækja umfram ákveðna jákvæða stærð yfir t.a.m. fimm ára tímabil mætti umsamið hlutfall af slíkum ábata, þ.e. umfram þá ávöxtunarkröfu sem um er samið, renna til endurbóta á höfnum landsins, endurnýjunar flota Landhelgisgæslunnar eða Hafrannsóknastofnunar.

Verði af auknum skattaálögum, t.a.m. veiðigjöldum, er raunveruleg hætta á að almennir fjárfestar gerist fráhverfir og lífeyrissjóðir landsins einnig. Þar glatast m.a. tækifæri til sveiflujöfnunar og styrkrar sjóðstýringar. Við verðum að vera raunsæ og gæta að því að ef við eyðileggjum grundvöllinn að vexti atvinnugreina með óskynsamlegri skattlagningu verður oft ekki aftur snúið. Við það mun aðeins fjölga glötuðum tækifærum.

Afrán hvala er þekkt eins og að framan greinir en þar eru tilfinningarnar látnar ráða og í raun e.k. skortur á skynsemi, undirbúningi og rannsóknum. Við skulum ekki stofna fjöreggi íslensku þjóðarinnar í hættu. Ræðum þessi mál af skynsemi, ekki tilfinningum og alls ekki popúlisma. Ef ekki verður enginn árangur og niðurstaðan allra tap.

Hér að framan er reifuð tillaga að lausn sem ætti að stuðla að sjálfbærni í rekstri og sanngirni í raun og sann. Þar geta aðilar mæst með raungögn og reynslutölur, fundið leið og leitað lausna.

Höfundur er M.Sc. í fjármálum fyrirtækja.

Höf.: Sveinn Óskar Sigurðsson