Jóhann L. Helgason
Jóhann L. Helgason
Auðlind hafsins er í eigu þjóðar- innar og finnst mér að íslensk stjórnvöld eigi núna að innleysa allan fiskveiðikvóta þjóðarinnar og deila honum skipulega á byggðarlögin.

Jóhann L. Helgason

Á sínum tíma, þegar íslensk stjórnvöld innleiddu hið umdeilda kvótakerfi á fiskveiðar innan 200 mílna landhelginnar, voru það mikil og alvarleg mistök.

Þar var óveiddur afli þjóðarinnar afhentur til ævarandi eignar hinum ýmsu útgerðarfyrirtækjum í snyrtilegum gjafaumbúðum, eftir einhverjum reiknikúnstum sem ansi flókið er að skilja. Þetta fyrirbæri hefur síðan valdið miklu ójafnvægi og óréttlæti í ýmsum dreifðum
sjávarbyggðum Íslands.

Afli þjóðarinnar fluttist þar
með sem arfgeng eign til örfárra fyrirtækja sem gátu síðan keypt upp minni útgerðarfyrirtæki og bætt þannig við fiskveiðikvóta sinn. Aflinn hefur þannig færst á æ færri hendur sem bólgna út um leið.

Ófá byggðarlög hafa orðið fyrir barðinu á þessu fyrirkomulagi, ásamt miklu tekjutapi, þar sem veiðiskipið og lífsviðurværi bæjarfélagsins var skyndilega selt burt með haus og hala. Eftir stóð bryggjusporðurinn nakinn og vélar frystihússins hljóðar í myrkvuðum vinnslusalnum.

Er nokkuð skrítið þótt fólk úti á landsbyggðinni fagni auknum strandveiðiflota, svona til að vega upp á móti kyrrstöðunni sem hefur plagað byggðarlögin, oft óþyrmilega, vegna kvótakerfisins allt fram á þennan dag?

Við þekkjum öll þessa döpru sögu kvótakerfisins sem hefur skilað litlu í ríkissjóð en því meiru í útgerðina og valdið oft á tíðum miklum usla og ójafnvægi í íslensku efnahagslífi.

Að þessu sögðu og þar sem auðlind hafsins er auðvitað í eigu þjóðarinnar finnst mér að íslensk stjórnvöld eigi núna að innleysa allan fiskveiðikvóta þjóðarinnar og deila honum skipulega á byggðarlögin, þar sem hinn óveiddi fiskur myndi eftir breytinguna tilheyra bæjarfélögunum. Bæjarfélögin myndu síðan, í samvinnu við Hafró og sjávarútvegsráðuneytið, deila fiskveiðinni með skipulögðum hætti til fiskveiðifyrirtækja landsins sem myndu þurfa að greiða ákveðið verð fyrir hvert tonn af afla sem að landi kæmi, sjálfsagt eitthvað misjafnt eftir tegundum. Útfærsla á slíkri breytingu væri gerð einföld og yrði hreinn barnaleikur samanborið við flækjurugl og vitleysu núverandi fiskveiðikerfis.

Aðeins þannig held ég að víðtæk sátt gæti náðst um fiskveiðar Íslendinga í hinu annars góða landi okkar.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Jóhann L. Helgason