Í brennidepli
Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur slegið á frest afhendingu á nokkrum vopnakerfum til Úkraínuhers, m.a. eldflaugavarnakerfinu Patriot sem reynst hefur vel gegn skotflaugum Rússlandshers. Ástæðan er sögð skortur á viðunandi birgðum vestanhafs, en Bandaríkin hafa einnig afhent Ísraelsher áðurnefnd kerfi til að tryggja varnir gegn árásum klerkastjórnarinnar í Íran. Bandaríkjaforseti segir mikilvægt að ganga ekki um of á birgðir landsins. Þó verði leitað leiða til að senda Úkraínuher fleiri eldflaugavarnir.
Formaður utanríkismálanefndar Úkraínuþings, Oleksandr Merezhko, segir Kænugarðsstjórn ekki hafa fengið neina viðvörun fyrir fram og illa hafi gengið að fá staðfestingu frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna. Hann sé þó vongóður um að hléið muni vara stutt og að mikilvæg vopnakerfi muni berast á ný.
„Þetta veldur okkur þó auðvitað miklum áhyggjum. Við leggjum mikla áherslu á að verja almenning í landinu. Sjálfur bý ég í Kænugarði og þar stunda Rússar nær daglega árásir. Patriot-kerfið hefur án efa bjargað þúsundum mannslífa þar. Ef við fáum ekki Patriot, þá verður útilokað fyrir okkur að granda eldflaugum Rússlandshers,“ segir hann og bætir við að loftvarnakerfi Evrópuherja muni ekki duga til.
Banvænt en afar dýrt kerfi
Við upphaf stríðs bjó Úkraínuher yfir sovéskum/rússneskum lofvarnakerfum, s.s. BUK og S-300. Eru þetta kerfi sem henta vel gegn hægfleygum skotmörkum á borð við árásardróna eða stýriflaugar. Til að granda hraðfleygum eldflaugum, s.s. þeim sem skotið er frá Iskander-skotpöllum, þarf hins vegar annað og öflugra kerfi. Og þar hefur Patriot sannað gildi sitt á vígvellinum. Hefur Úkraínuher nú minnst sex Patriot-skotkerfi sem öll eru að líkindum staðsett í námunda við þéttbýl svæði og/eða hernaðarlega mikilvæga innviði landsins.
Með mikilli einföldun má segja að Patriot-kerfið samanstandi af þremur einingum sem allar hvíla á trukkagrindum og eru því færanlegar. Má þar fyrst nefna vopnaratsjá sem greint getur flugvélar í 100 kílómetra fjarlægð og eldflaugar í um og yfir 200 kílómetra fjarlægð. Rauntímagögn berast frá vopnaratsjá yfir í stjórnstöð kerfisins. Þar er unnið úr upplýsingunum og metið hvort nauðsynlegt sé að virkja skotflaugar. Hvert Patriot-kerfi hefur yfir að ráða allt að 16 gagnflaugum.
Í fyrstu var talið að Patriot væri of tæknilega flókið og krefjandi í rekstri til að gagnast á vígvöllum Úkraínu. Hernaðarsérfræðingar segja nú að kerfið hafi staðist allar væntingar og gott betur. Hafa gagnflaugar Patriot t.a.m. grandað ofurhljóðfráum Kinzhal-eldflaugum Rússa sem sagðar voru óstöðvandi. Gerðist það fyrst hinn 16. maí 2024, en þá greindi vopnaratsjá Patriot sex Kinzhal-flaugar á flugi í um 200 kílómetra fjarlægð og tókst gagnflaugum að granda þeim öllum.
Úkraínuher notar tvær tegundir af Patriot-gagnflaugum og notar önnur þeirra sprengjubrot til að granda skotmarki sínu en hin flýgur utan í skotmarkið af miklu afli.
Patriot-kerfið er langdýrasta vopnakerfi sem Bandaríkin hafa afhent Úkraínuher til þessa. Hvert kerfi kostar um einn milljarð bandaríkjadala og tekur um tvö ár í framleiðslu. Gagnflaugarnar eru einnig dýrar, kosta rúmlega fjórar milljónir bandaríkjadala. Þá eru kerfin einnig frek á mannafla og kalla á umtalsverða þjálfun og þekkingu svo hægt sé að beita þeim með góðum árangri.
Gagnflaugakerfi
Evrópa með fá spil á hendi
Fari svo að Bandaríkin afhendi Úkraínu ekki fleiri Patriot-kerfi mun Kænugarður þurfa að leita á náðir Evrópuherja til að efla loftvarnir. Það kann þó að reynast erfitt því Evrópu skortir mjög gagnflaugakerfi sem grandað getur hraðfleygum eldflaugum á borð við hinar ofurhljóðfráu Kinzhal.
Bæði Þjóðverjar og Frakkar búa yfir afar öflugum gagnflaugakerfum, en þau búa þó ekki yfir áðurnefndri getu. Þess utan, þá er átakanlegur skortur á gagnflaugakerfum innan Evrópu og því ólíklegt að álfan geti afhent Úkraínu vopnakerfið án þess að ógna eigin stöðu.