Haraldur Pálmar Haraldsson fæddist í Reykjavík 7. mars 1953. Hann lést á Móbergi Selfossi 23. júní 2025.

Foreldrar hans voru Haraldur Eyland Pálsson húsasmíðameistari frá Siglufirði, f. 7. júlí 1924, d. 18. desember 1983, og Eyrún Maríusdóttir húsmóðir úr Reykjavík, f. 21. júní 1923, d. 18. janúar 1999.

Haraldur var næstyngstur fjögurra barna þeirra. Systkini hans: Sverrir Eyland, f. 28. janúar 1949, d. 23. ágúst 1973, Eyþór Már, f. 19. maí 1950, og Guðbjörg Rós, f. 21. október 1954.

Útför hans fór fram í kyrrþey.

Ég var í vinnunni þegar ég fékk fréttirnar um að Halli frændi, eins og hann var jafnframt kallaður í fjölskyldunni, væri allur. Það tók á, satt best að segja. Þrátt fyrir að Haraldur væri ekki nema ári eldri en mamma okkar var hann eins og 100 ára gamall karl seinustu árin. Hann hafði fengið eins konar heilablæðingu og dvaldist seinasta árið eða svo á Móbergi á Selfossi og var líklegast sá yngsti á dvalarheimilinu. Það gladdi mig að hann hefði fengið pláss á Móbergi því ég og sonur minn, ásamt nánasta fólki kom reglulega í heimsókn til hans, en það lá misjafnlega á kallinum, stundum sagði hann eiginlega ekki neitt en það kom fyrir að hann væri hress og hægt var að spjalla við hann og rifja upp hluti með honum. Haraldur var mikill brandarakall og fór oft með ýmsa frasa sem erfitt er að þylja upp eftir honum. Þó eru þeir nokkrir sem liggja eftir hann hjá okkur nánasta fólki, en sumir frasarnir betur geymdir á borði en í orði.

Halla frænda hef ég þekkt alla mína ævi, ég ólst upp í sama húsi og hann, hann á neðri hæðinni og var daglegur gestur á efri hæð hússins í Vesturberginu, sérstaklega eftir að amma Eyrún lést. Þá kom hann upp til okkar til að borða, spjalla, og jafnvel til að leggja sig í rúmunum okkar krakkanna. Stundum eftir skóla kom ég heim og kallinn var steinsofandi í rúminu mínu. Ég hafði ekki gaman af því. Sérstaklega þegar vinkonur mínar voru með og engin þeirra hafði upplifað annað eins. Það var oft skrautlegt í Vesturberginu, heimilisaðstæður voru erfiðar eftir skilnað foreldra okkar, því var Haraldur oft eins og ljósið í myrkrinu því hann, þrátt fyrir sín andlegu veikindi, gerði oft daginn minn betri. Hann skreytti aðstæður með nærveru sinni. Því var oft gott að hafa hann, en ég leit nokkurn veginn á hann eins og afa minn sem ég kynntist aldrei en Haraldur var duglegur að segja mér frá afa og okkar nánasta fólki.

Haraldur var mikill fjölskyldukall, þrátt fyrir að hann ætti enga fjölskyldu sjálfur vorum við fjölskyldan hans. Við höfum flest systkinin, eftir að við urðum hálffullorðin búið á neðri hæðinni hjá Halla frænda, en þar var hann með tvískipta íbúð, svo að við fengum að búa í öðrum hlutanum. Fyrst Sæþór, svo Halli og svo ég. Ég bjó í mörg ár niðri hjá Halla frænda fyrir nánast ekkert. Sambúðin gekk þó ekki alltaf smurt fyrir sig, hún var krefjandi í mestu veikindum hans og fékk maður þá að finna fyrir því. En þegar hann var heilbrigður gekk allt vel. Alltaf gat maður fyrirgefið ýmsar gloríur sem Haraldur gerði því ég áttaði mig snemma á því að hann var ekki alveg eins og aðrir.

Haraldur ólst upp á tímum altækra stofnana, og síðar sambýla, þar sem fötluðu fólki var gjarnan komið fyrir á en blessunarlega losnaði Haraldur undan slíkri vist og bjó með foreldrum, og síðar foreldri sínu allt þar til 1999 en bjó þá einn í eigin íbúð í Vesturberginu. Hann var alltaf með sjálfræði, átti sinn bíl og var algjörlega frjáls ferða sinna. Hann var stoltur af því og það skipti hann miklu máli, þó var erfitt fyrir hann að halda heimili einn. Haraldur var þannig maður að peningar skiptu hann engu máli, hann var tilbúinn til þess að gefa skyrtuna af bakinu á sér þeim sem þurftu. Því í hans huga átti hann alltaf nóg þótt hann ætti kannski ekkert.

Halli frændi átti viðburðaríka ævi, hann gerði hluti sem engum endilega dytti í hug að gera, fara á bílnum út á land um miðja nótt, varð kannski bensínlaus á leiðinni og framkvæmdi nokkurn veginn allt sem honum datt í hug og lenti í alls konar ævintýrum innanlands. Alltaf náði hann að redda sér.

Haraldur var mjög félagslyndur maður og sótti reglulega Dvöl í Kópavogi, sem er athvarf fyrir geðfatlaða, og eignaðist þar marga vini, en hann sótti alveg sérstaklega í það að vera með fólki og spjalla við alls konar fólk.

Sígarettur, kaffi, Pepsi, bananar, Quality Street og Appolo lakkrís var uppáhalds, en að auki var uppáhalds lagið hans Monday, Monday með Mamas and the Papas og var hann hæstánægður ef hann fékk eitthvað af ofantöldu. En að því sögðu var hann sjálfur einn sá gjafmildasti, hann var til dæmis sá eini sem færði okkur, konunum í fjölskyldunni, rauðar rósir á konudaginn. Og hann mundi alltaf eftir konudeginum, og öllum afmælisdögum ef út í það er farið. Hann kunni að virkilega elska fólk og sótti sérstaklega í fólkið sitt í stór-fjölskyldunni, sem fer nú fækkandi.

Það skipti Harald miklu að koma undir okkur krökkunum fótunum í lífinu en honum tókst ætlunarverk sitt með því að vilja hýsa okkur eitt á eftir öðru og eigum við því Haraldi mikið að þakka fyrir okkar velgengni í lífinu.

Takk fyrir allar góðu stundirnar. Takk fyrir að leyfa okkur Halla Gunna að blanda handa þér ógeðsdrykki og þú sagðir þá mjög góða. Takk fyrir alla brandarana og draugasögurnar og að fara með okkur í sund og þykjast vera hákarl, takk fyrir rósirnar, takk fyrir allt skutlið, takk fyrir að gefa mér pening í bíó og Spice Girls geisladiskinn, takk fyrir allar fyndnu uppákomurnar og takk fyrir að vera til staðar fyrir okkur.

Ég minnist Halla frænda með þakklæti, virðingu, ást og kærleika.

Sérstakar þakkir færi ég móður minni fyrir að hafa annast Harald til fjölda ára og verið honum stoð og stytta í gegnum lífið.

Karitas Eyrún Matthíasdóttir