Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Spjall við búðarborðið, þægileg stemning og vinátta við þá sem í búðina koma. Þetta er mikilvægur þáttur í kaupmennsku,“ segir Dóróthea Gunnarsdóttir í Álnavörubúðinni í Hveragerði. Nú í vikunni spurðist út að senn yrðu breytingar á starfsemi þar. Búðin er við götuna Breiðumörk í húsnæði í eigu Kjöríss, sem nú vill fara í endurbætur á húsinu og nýta með öðru móti. Leigusamningi við Álnavörubúðina hefur því verið sagt upp og hann rennur út snemma á næsta ári.
Saga Álnavörubúðarinnar spannar 38 ár. Dóróthea keypti reksturinn árið 2007 og hefur staðið vaktina síðan í vinsælli verslun, þá ekki síst meðal Íslendinga. Fatnaður, leikföng, búsáhöld, lopi, garn, handklæði, borðþurrkur og svo mætti lengi áfram telja. Fjölvörubúð er orð sem fangar aðstæður á stað, sem líkja má við kaupfélag úti á landi.
„Ísbíltúr austur í Hveragerði úr borginni stendur alltaf fyrir sínu. Eldra fólk til dæmis úr Reykjavík kemur hingað oft og er viðskiptavinir í bestu merkingu þess orðs,“ segir Dóróthea sem hefur verið við verslunarrekstur í áratugi. Er því flestu kunnug í slíkri starfsemi. Galdurinn segir hún ekki síst felast í því að gera góð innkaup og hafa tengsl við birgja.
„Skór hafa alltaf verið áberandi hér og þá fæ ég í gegnum heildsölu heima. Annað kaupi ég mikið til dæmis frá Frakklandi og fer þangað út 5-6 sinnum á ári. Fer þá á markaði sem ég þekki, tíni til vörur sem eru komnar í búðina örfáum dögum síðar. Ég gæti aðhalds og þannig get ég haldið vöruverði niðri,“ segir Dóróthea. Hún kveðst hafa fengið pósta og upphringingar víða frá á síðustu dögum eftir að fregnaðist að húsnæðismál Álnavörubúðarinnar væru í uppnámi. Verið sé að skoða möguleikana í Hveragerði, en þar skuli búðin vera – svo sterkur þáttur sé hún orðin í bæjarmyndinni.