Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði í gær „stóra fallega frumvarpið“, og varð það þar með að bandarískum lögum. Trump hafði lagt mikinn þunga á að geta undirritað frumvarpið í gær, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, og tókst það eftir langa umræðu á Bandaríkjaþingi.
Trump fagnaði frumvarpinu í gær og sagði að það myndi tryggja efnahag, landamæri og herveldi Bandaríkjanna. Trump undirritaði frumvarpið eftir hátíðlega athöfn við Hvíta húsið, þar sem hann hampaði flugmönnunum sem tóku þátt í loftárásum Bandaríkjanna á Íran í síðasta mánuði. Flugu B-2-sprengjuvélar Bandaríkjahers yfir Hvíta húsið við athöfnina.