Dalabyggð Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri segir að mikið vatn eigi enn eftir að renna til sjávar áður en framkvæmdir geti hafist.
Dalabyggð Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri segir að mikið vatn eigi enn eftir að renna til sjávar áður en framkvæmdir geti hafist. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áformað er að reisa 119 MW vindorkuver á landi Hróðnýjarstaða í Dalasýslu. Fyrirtækið Stormorka ehf. stendur á bak við framkvæmdirnar. Umhverfismat liggur nú fyrir og framkvæmdin er í mats- og skipulagsferli

Í brennidepli

Björn Diljan Hálfdanarson

bdh@mbl.is

Áformað er að reisa 119 MW vindorkuver á landi Hróðnýjarstaða í Dalasýslu. Fyrirtækið Stormorka ehf. stendur á bak við framkvæmdirnar. Umhverfismat liggur nú fyrir og framkvæmdin er í mats- og skipulagsferli. Markmið verkefnisins er að auka orkuöryggi landsins, einna helst á Vesturlandi. Framkvæmdastjóri Stormorku segist vongóður um að leyfi fáist eftir níu ára vinnu. Sveitarstjóri Dalabyggðar segir mikið vatn enn eiga eftir að renna til sjávar áður en framkvæmdir geta hafist.

Himinháar vindmyllur

Vindorkuverið, sem fengið hefur nafnið Storm I, samanstendur af 18 vindmyllum. Hver vindmylla verður með 6,6 MW uppsett afl. Hæð vindmyllanna er 167,5 metrar ef miðað er við spaða í hæstu stöðu. Vindmyllurnar verða reistar á um 415 hektara framkvæmdasvæði þar sem áætlað er að um 51 hektari raskist vegna vegagerðar, undirstaða, kranaplana og tengibúnaðar.

Hverri vindmyllu fylgja steyptar undirstöður, kranaplön, geymslusvæði og jarðstrengir sem tengja þær við safnstöð. Rafmagnsframleiðslu vindmylla er safnað saman í safnstöðunum þar sem spennan er hækkuð. Frá safnstöðinni verður spennunni síðan komið áfram til flutningskerfis Landsnets, líklega í gegnum Glerárskógalínu 1.

Gríðarleg efnahagsáhrif

Magnús B. Jóhannsson framkvæmdastjóri Stormorku segir verkefnið bjóða upp á ýmis tækifæri fyrir Dalabyggð.

„Í fyrsta lagi verður raforkuöryggi tryggt á svæðinu og í öðru lagi hefur þetta gríðarleg efnahagsleg áhrif. Dalabyggð tekur þátt í „Brothættum byggðum“, verkefni ríkisstjórnarinnar, og við vonumst til að geta styrkt efnahagslegar stoðir sveitarfélagsins,“ segir Magnús í samtali við Morgunblaðið.

Miklir flutningar

Allur búnaður sem þörf er á verður fluttur frá Grundartangahöfn, þar sem landað verður. Áætlað er að fara þurfi 54 ferðir með fjórum stórum flutningabílum í hverri ferð og taki ferðirnar um níu vikur, auk annarra flutninga á efni, búnaði og mannskap. Flutningarnir kalla á styrkingu Hjarðarholtsvegar og að einni brú verði skipt út vegna burðarþols. Samráð hefur verið haft við Vegagerð og lögreglu og nánari úttektir liggja fyrir síðar.

Gert er ráð fyrir um 300 starfsmönnum á ári við byggð versins. Það kemur fram í mati Stormorku að fjöldi starfsmanna muni setja aukið álag á heilsugæslu Dalabyggðar og að það gæti þurft að ráða þangað aukamannskap til að mæta álaginu.

Magnús segir umhverfisáhrif framkvæmdarinnar vera lítil. „Öll mannanna verk hafa einhver áhrif, sama hvað það er, en eftir sex ára rannsóknir kemur í ljós að áhrif verkefnisins eru minni háttar.“

Enn langt í land

Björn Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri Dalabyggðar segir verkefnið ekki vera inni í rammaáætlun stjórnvalda. „Það er hvorki flokkað þar í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk. Sveitarstjórnin lítur svo á þetta að ramminn verði að segja til um hvað er á dagskrá hverju sinni og verkefni fái framgang eftir það faglega ferli sem þar á sér stað,“ segir Björn Bjarki í samtali við Morgunblaðið og bætir við að formleg afstaða til þessa tiltekna verkefnis liggi ekki fyrir, svæðið sé flokkað sem verndarsvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Björn Bjarki segir það ekki liggja fyrir hvort framkvæmdir á raforkuverinu fari af stað. „Ég tel að það eigi töluvert vatn eftir að renna til sjávar ef og þegar það mögulega gerist,“ segir hann.

Björn Bjarki segir málið vera viðkvæmt í Dölum eins og annars staðar um landið og að mikilvægt sé að stigið sé varlega til jarðar í þessum efnum.

Magnús segir að samstarf við sveitarstjórn Dalabyggðar hafi alltaf verið mjög gott. „Við erum held ég á þriðja sveitarstjóranum núna og það hefur alltaf verið mjög gott samband okkar á milli.“

Breyting á aðalskipulagi

Framkvæmdin krefst breytinga á aðalskipulagi Dalabyggðar þar sem svæðið er ekki skilgreint sem virkjanasvæði. Þá þarf einnig að gera deiliskipulag og tryggja öll nauðsynleg leyfi. Samkvæmt skýrslunni hefur kynning farið fram á verkefninu og samráð við íbúa og hagsmunaaðila auk dreifingar á gögnum í gegnum skipulagsgátt og opinbera vettvanga.

„Þó svo að breyting á aðalskipulagi kveði á um breytingu á þessu landsvæði í iðnaðarsvæði þá mun meginþorri svæðisins verða nýttur eftir sem áður sem upprekstrar- og beitiland fyrir sauðfé,“ segir í matinu.

Höf.: Björn Diljan Hálfdanarson