Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir aukna úthlutun til strandveiðiheimilda koma á óvart. Atvinnuvegaráðuneytið tilkynnti í gær að 1.000 tonnum hefði verið bætt við strandveiðiheimildir en það þýðir að nú eru rétt rúm 2.000 tonn eftir í pottinum

Diljá Valdimarsdóttir

dilja@mbl.is

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir aukna úthlutun til strandveiðiheimilda koma á óvart. Atvinnuvegaráðuneytið tilkynnti í gær að 1.000 tonnum hefði verið bætt við strandveiðiheimildir en það þýðir að nú eru rétt rúm 2.000 tonn eftir í pottinum. Í tilkynningu ráðuneytisins kom fram að svigrúm til aukinna aflaheimilda hefði skapast í gegnum viðskipti Fiskistofu á skiptimarkaði á íslenskri sumargotssíld.

„Staðan er núna með þeim hætti að það eru enn sem komið er ekki til nægar heimildir til þessarar auknu strandveiði. Kvóti á þorski sem ríkið hefur fengið á tilboðsmarkaði dugar einfaldlega ekki til að fylla upp í þetta skarð. Ríkið er því í rauninni ennþá í skuld miðað við það sem þegar hefur verið úthlutað sértækt samkvæmt reglugerðinni,“ segir Heiðrún Lind í samtali við Morgunblaðið.

Aukningin ekki jákvæð

Spurð hvort aukningin sé jákvæð fyrir strandveiðigeirann segir Heiðrún að svo sé ekki. „Þegar aflaheimildir eru ekki til þá er óábyrgt að halda áfram að úthluta heimildum. Það verður fróðlegt að heyra hvaðan þessar heimildir eru teknar þegar fyrir liggur að þær eru ekki til samkvæmt þeim heimildum sem ráðherra hefur,“ segir Heiðrún Lind.

Fagna viðbótinni

Strandveiðisjómenn og smábátaeigendur fagna viðbótinni við strandveiðiheimildir og hrósar Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, atvinnuvegaráðherra fyrir að standa í lappirnar gegn stjórnarandstöðunni.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir að 1.000 tonn geti haft mikið að segja. Segist hann treysta því að mönnum verði tryggðir 48 dagar og ráðuneytið muni vafalaust finna út úr því hvernig best sé að standa að fyrirkomulaginu.

Höf.: Diljá Valdimarsdóttir