[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessi grein átti upphaflega ekki að vera upptalningargrein en hjá því verður ekki komist. Ég ætla því að ryðja út úr mér nöfnum sem hafa verið iðin við kolann að undanförnu.

TÓNLIST

Arnar Eggert Thoroddsen

arnareggert@arnareggert.is

Það er um auðugan garð að gresja þegar litið er til efnisframleiðslu hvað varðar íslenska kvikmynda- og sjónvarpsþáttatónlist. Mér rann blóðið til skyldunnar að safna þessu aðeins saman og er ég að líta til u.þ.b. síðasta árs og fyrri hluta þessa. Tónspor er frábær þýðing á „original soundtrack“ eða „OST“ eins og þetta er kallað á ensku. Það vill svo til að við Íslendingar eigum heimsfræg tónskáld á þessu sviði; Hildi Guðnadóttur, Ólaf Arnalds, HÖH (Hilmar Örn Hilmarsson), Atla Örvarsson og Jóhann Jóhannsson til dæmis. Herdís Stefánsdóttir og Birgir Hilmarsson, Biggi Hilmars, hafa þá tónsett stór verkefni að undanförnu. Fólk sem hefur hingað til verið þekkt fyrir „eigin“ tónlist, ef ég má orða það svo, hefur líka látið til sín taka undanfarið, nefni m.a. Gyðu Valtýsdóttur, Sin Fang og Högna Egilsson.

Hefst þá lestur: Út er t.d. komin á streymisveitum tónlistin við þættina Vigdísi en hana sömdu þær Salka Valsdóttir og nefnd Herdís Stefánsdóttir. Skúli Sverrisson samdi tónlist við nýja mynd Yrsu Roca Fannberg, Jörðin undir fótum okkar (2025), en ég hef ekki frétt af útgáfu á tónlistinni sérstaklega. Þessi grein átti upphaflega ekki að vera upptalningargrein en hjá því verður ekki komist. Ég ætla því að ryðja út úr mér nöfnum sem hafa verið iðin við kolann að undanförnu en beina svo sérstaklega sjónum (eyrum) að tveimur tónskáldum í restina.

Högni Egilsson á tónlistina í Snertingu Baltasars Kormáks og var að ljúka við tónlist fyrir aðra stórmynd úr smiðju Baltasars. Magnús Jóhann á tónlistina í Ljósvíkingum, Margrét Rán sá réttilega um heimildarmyndina The Day Iceland Stood Still, Davíð Berndsen samdi tónlist við heimildarmyndina Strengur, Jósep Gíslason gerði tónlistina við vampírumyndina Blood & Rust (í eftirframleiðslu), Una Stef gerði tónlist við TOPP 10 MÖST, Agnar Már Magnússon samdi tónlistina við Draumar, konur & brauð, Kristján Sturla Bjarnason á tónlistina í Fjallið það öskrar, Úlfur Eldjárn á tónlistina í hlaðvarpinu Where is Jón?, Kjartan Sveinsson semur fyrir O (stuttmynd eftir Rúnar Rúnarsson), Úlfur Hansson er með heimildarmyndatvennu (A Simple Soldier og The Dancer) og hljómsveitin Mono Town á tónlistina í draumaverksmiðjumyndinni Old Guy. Allt þetta er frá þessu ári eða því síðasta, nokkuð fínlega reiknað. Ragnar Ólafsson (Árstíðir) á þá tónlistina í sjónvarpsþáttaröðinni Little Disasters og Dustin O'Halloran samdi fyrir stórmyndina Bridget Jones 4 en hann býr hérlendis og er maður áðurnefndrar Herdísar Stefánsdóttur.

Ég vil þá nefna sérstaklega að Julius Pollux, sem búsettur er hérlendis (og leikur m.a. í neðanjarðardúettinum/sveitinni BSÍ), á tónlistina við No Other Land, heimildarmyndina palestínsku sem vann Óskarsverðlaun. Tónlist hans við heimildarmyndaröðina World White Hate er þá væntanleg (frumsýnd á Arte 8. júlí).

Að lokum er það svo Snorri Hallgrímsson sem á glæsitónlist við myndina Innocence (2022) en tónlistin kom ekki út fyrr en í maí 2024. Myndin tónar við No Other Land en fylgst er með ísraelsku ungviði sem alið er upp í landi sem er gegnsósa af hernaðarhyggju. Hann á þá tónlistina í Words of War sem er nýkomin út, mynd sem fjallar um rússneska aðgerðasinnann Önnu Politkovskayu sem þurfti að gjalda fyrir þá baráttu með lífi sínu.

Ég ítreka að þessi pistlingur er ekki nándar nærri tæmandi og alveg ábyggilega eitt og annað sem fór fram hjá pistilritara.

Höf.: Arnar Eggert Thoroddsen