Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Opnuð hefur verið í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka sýningin Yfir beljandi fljót. Sú fjallar um sögu fólks sem ferðaðist gangandi og ríðandi á tímum þegar óbrúaðar ár og vötn klufu Árnessýslu. Fólk ferðaðist um og fór yfir árnar í ferjum eða á vöðum. Oft þurfti að þræða langa króka til að komast á milli staða þar sem ófært var yfir ár, vötn og mýrar.
Langt labb og skeifa undir hest
„Sýningin fjallar um samgöngur í Árnessýslu áður en fljótin voru brúuð. Farið var gangandi og ríðandi. Um margt þurfti að hugsa, allur ferðabúnaður þurfti að vera til staðar, nesti og nýir skinnskór, þetta var þolraun fyrir hest og knapa, skinnskór slitnir eftir langt labb og endrum og eins þurfti að setja nýja skeifu undir hest,“ sagði Lýður Pálsson safnstjóri í ávarpi við opnun sýningar.
Rétt fyrir aldamótin 1900 voru stærstu árnar, Ölfusá og Þjórsá, brúaðar en því fylgu breytingar sem náðu til samfélagsins alls. Eftir lifa margar sögur af ferðalögum við krefjandi aðstæður.
Á sýningunni er varpað ljósi á ferðamáta fólks, ferðaútbúnað, skófatnað, reiðtygi og síðast en ekki síst sjá gestir ljósmyndir, sögubrot og sagnir sem tilheyrðu þessum tíma. Margar frásagnir hverfast eðlilega um árnar í sýslunni, sem voru miklir farartálmar, eins og Ölfusá, Sogið, Brúará, Hvítá og Tungufljót og svo Þjórsá á sýslumörkum. Sýningin var opnuð 20. júní og stendur til septemberloka auk þess sem hún lifir næsta sumar, en þá í breyttri mynd. Byggðasafn Árnesinga er opið alla daga frá 10-17 til septemberloka.
Flutti fólk á Alþingishátíðina
Af öðru á vettvangi Byggðasafns Árnesinga má nefna að nýlega var því falinn til varðveislu svonefndur Gistihúsbíll, sem er Ford B-módel, árgerð 1930, vörubíll með farþegaboddíi. Sá var upphaflega í eigu Kristins, Gunnars og Guðmundar Gunnarssona í Gunnarshúsi, sem einnig var nefnt Gistihúsið á Eyrarbakka. Bifreiðin var notuð við margs konar verkefni á Eyrarbakka eins og malarflutninga við vegagerð og vöruflutninga. Einnig farþegaflutninga, meðal annars á Alþingishátíðina á Þingvöllum árið 1930. Á árum heimsstyrjaldarinnar síðari nýttist hann svo í ýmsu við flugvallargerð breska hersins í Kaldaðarnesi í Flóa.
Þeir Erlingur Ævarr Jónsson útgerðarmaður í Þorlákshöfn og Guðbjörn Frímannsson mjólkurbílstjóri á Selfossi, sem báðir eru látnir, keyptu bílinn árið 1975. Guðbjörn annaðist uppgerð bílsins sem fór á götuna árið 1978. Sá verður nú geymdur í varðveisluhúsi Byggðasafns Árnesinga á Eyrarbakka. Verður ekið á sýningar þegar þess er óskað og jafnframt má búast við að á tyllidögum á Eyrarbakka bregði Fordinum fræga fyrir á götum þorpsins.