Stefán Guðleifsson var að athuga með stöðu gaskúta í hjólhýsi sínu þegar blaðamaður gaf sig á tal við hann en spurður hvert ferðinni væri heitið sagði Stefán:
„Við erum bara að fara í uppsveitir Árnessýslu en erum ekki enn búin að ákveða hvar við ætlum að tjalda.“
Þá sagði Stefán að hann og kona hans væru vanir ferðalangar og því ekki mikið mál að undirbúa útilegu sem þessa. Þau þyrftu aðeins að taka saman helstu nauðsynjar og kaupa í matinn en matseðill kvöldsins var þegar tilbúinn, grillaðir hamborgarar í aðalrétt og grillaðir bananar með súkkulaði í eftirrétt.
Þegar blaðamann bar að garði á bensínstöð Olís við Norðlingaholt var Gunnar Jónsson að ljúka við að undirbúa hjólhýsið fyrir helgina. Spurður hvert ferðinni væri heitið sagðist hann vera á leið í Hvalfjörðinn ásamt Selmu konu sinni.
„Við erum að fara að Stóra-Lambhaga,“ sagði Gunnar en aðspurður kvaðst hann ekki hafa neinar sérstakar tengingar við staðinn. „Við gistum bara þar í fyrra og það var mjög gott tjaldstæði.“
Gunnar og Selma segjast reyna að ferðast sem mest eftir að þau hættu að vinna en þau hafa nú þegar farið hringveginn einu sinni í sumar.
Hulda Styrmisdóttir er öllu vön þegar kemur að útilegum en blaðamaður náði tali af henni þar sem hún keypti síðustu nauðsynjarnar fyrir ferðalagið á N1 í Ártúnsbrekku, gaskút og blómvönd.
„Til að byrja með ætla ég að fara aðeins vestur, svo ætla ég aðeins með Norðurlandinu og svo ætla ég bara að fylgja sólinni,“ sagði Hulda og bætti við að fyrsta stopp ferðarinnar yrði á Reykhólum.
Þá sagði hún aðspurð að hún ætlaði að gista í gamla góða tjaldinu.
„Ég gisti í tjaldi. Mér finnst það skemmtilegt og gott og hef alltaf gert það.“
Hilmir Þór Pétursson og Sigrún María Jónsdóttir voru stödd í Ártúnsbrekkunni ásamt tveimur börnum sínum að leggja lokahönd á undirbúning fyrir ferðalag helgarinnar.
Aðspurð sögðu þau vera á leiðinni í Norðurárdal.
„Við erum á leiðinni á Glitstaði,“ sagði Hilmir og bætti við að þau ættu vinkonu þaðan.
Þegar þau voru spurð hvort þau væru með mikil plön fyrir dvölina þar sögðu þau svo ekki vera en að krakkarnir myndu fá að hlaupa um.
„Við ætlum að njóta þess að vera í pottinum, það á að vera sól alla helgina,“ sagði Sigrún að lokum.