Forsvarsmenn hryðjuverkasamtakanna Hamas sögðu í gærkvöldi að þeir væru reiðubúnir að hefja viðræður um mögulegt vopnahlé í í átökum samtakanna við Ísraelsher „þegar í stað“. Ráðfærðu þeir sig við aðra hópa Palestínumanna á Gasasvæðinu fyrr um daginn um vopnahléstillögur, sem stjórnvöld í Katar, Egyptalandi og Bandaríkjunum lögðu fram, en ríkin þrjú höfðu milligöngu um tvö fyrri vopnahlé, þar sem gert var tímabundið hlé á átökunum á meðan fangaskipti fóru fram.
Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, hét því í fyrrakvöld að hann myndi fá alla gísla samtakanna heim, en þeir hafa nú verið í haldi Hamas frá því 7. október 2023, eða í 21 mánuð. Samtökin tóku þá 251 mann í gíslingu, og eru 49 manns ennþá á Gasasvæðinu. Ísraelsher telur þó að 27 þeirra séu látnir.
Netanjahú heldur í dag til Washington til viðræðna við Donald Trump Bandaríkjaforseta, en hann sagðist á fimmtudaginn vilja vopnahlé á Gasasvæðinu til þess að tryggja öryggi almennings þar. „Þau hafa gengið í gegnum helvíti,“ sagði Trump.
Heimildarmaður AFP-fréttastofunnar frá Palestínu sagði að í raun væru engar grundvallarbreytingar í núverandi tillögum frá þeim síðustu sem Bandaríkjastjórn lagði fram, en tillögurnar hljóða m.a. upp á að gert verði vopnahlé í 60 daga. Sé stefnt að því að Hamas-samtökin sleppi þar 11 af þeim 22 gíslum sem enn eru taldir á lífi, en í skiptum fyrir þá láti Ísraelsstjórn lausa Palestínumenn úr ísraelskum fangelsum.
Ísraelsher sagði í tilkynningu í gær að hann hefði haldið áfram loftárásum á Hamas-samtökin síðustu daga, þar á meðal í Gasaborg í norðri og Khan Yunis og Rafah í suðri.