Kristinn Karl Brynjarsson
Það er eitt að vera ósammála um stefnu í sjávarútvegsmálum. En þegar ríkisstjórn Íslands leggur fram frumvarp um veiðigjöld – eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar – án þess að stjórnarandstaða fái aðgang að forsendum, án þess að áhrifamat sé gert og án þess að helstu stofnanir fái að koma að borðinu, þá er ekki lengur um lýðræðislega málsmeðferð að ræða. Þá er verið að misnota vald.
Þetta er ekki bara pólitískt skeytingarleysi – þetta er ekki bara kerfisbundin aðför að trausti almennings á löggjafarvaldinu, heldur hvorki meira né minna en aðför að heilli atvinnugrein og sjávarbyggðum víðs vegar um landið. Þegar frumvarpið tekur gagngerum breytingum í meðförum nefndarinnar, án þess að ný gögn fylgi, og þegar stjórnarandstaðan fær ekki að sjá þau gögn sem breytingarnar byggjast á – þá er verið að setja lög í myrkri.
Þegar minnihlutinn í atvinnuveganefnd biður um að Skatturinn endurreikni forsendur frumvarpsins og þarf að hafa verulegan eftirgangsmuni til að fá það fram – og niðurstaðan sýnir að forsendurnar standast ekki – þá er ljóst að málið hvílir á veikum grunni. Enn alvarlegra er að þeir aðilar sem hefðu getað veitt mikilvægar upplýsingar – eins og Skatturinn og Byggðastofnun – fengu ekki að mæta fyrir nefndina og leggja fram sín sjónarmið. Það er lýsandi fyrir vinnubrögð sem útiloka aðhald og grafa undan trausti á þinginu sem vettvangi opinnar umræðu.
Þá er það einnig ámælisvert að stjórnarþingmenn og ráðherrar, sem bera ábyrgð á frumvarpinu, eru að mestu fjarverandi í umræðunum á Alþingi. Þeir sem ættu að standa vörð um frumvarpið og svara gagnrýni kusu að sitja hjá – eða einfaldlega mæta ekki. Slík fjarvera er ekki aðeins óvirðing við þingræðið, heldur sýnir hún skort á vilja til að axla ábyrgð og takast á við málefnalega umræðu.
Þegar stjórnvöld beita leynd, útiloka faglega aðila frá málsmeðferð, neita að afhenda gögn og keyra í gegn lagafrumvörp án gagnsæis eða lýðræðislegrar umræðu, þá er ekki um lýðræðislegt stjórnarfar í eiginlegri merkingu að ræða. Slík vinnubrögð eru einkenni þess sem kalla má lýðræðishallandi stjórnarfar – þar sem formlegt lýðræði er til staðar, en valdinu er í reynd beitt án ábyrgðar og gagnsæis.
Í þessu tilfelli má jafnvel tala um valdníðslu. Þegar aðferðirnar sem beitt er miðast að því að útiloka aðhald, þagga niður í gagnrýni og keyra í gegn lagasetningu sem þjónar þröngum sérhagsmunum, þá er verið að grafa undan lýðræðinu sjálfu.
Ríkisstjórnin virðist telja að ef hún bara keyri málin hratt í gegnum þingið, þá muni enginn taka eftir því hvað forsendurnar eru loftkenndar, gagnrýnin er útilokuð og vinnubrögðin ólýðræðisleg. En fólk tekur eftir. Og það á ekki að þurfa að minna á það í lýðræðisríki að lög verða að byggjast á staðreyndum – ekki hentugleika.
Veiðigjaldafrumvarpið, eins og það hefur verið kynnt og unnið, er ekki bara pólitísk mistök – það er dæmi um hvernig valdi getur verið beitt í annarlegum pólitískum tilgangi án ábyrgðar, en af pólitískum ofstopa á hæsta stig. Þetta eru ekki fagleg eða boðleg vinnubrögð við lagasetningu í þágu almennings. Nei, þetta er pólitísk skemmdarverkastarfsemi knúin áfram af annarlegum pólitískum ofstopa. Það eru vinnubrögð sem þjóðin á ekki að þurfa að horfa upp á að séu viðhöfð á hinu háa Alþingi, hvað þá að sætta sig við.
Höfundur er formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.