Ólafur Guðmundur Jósefsson fæddist á Landspítalanum 5. júlí 1950. „Ég átti heima á Miklubraut 70 til fjögurra ára aldurs og flutti þá í Mosgerði 14 þegar foreldrar mínir keyptu það hús.“
Hann var mikið í hestamennsku sem barn. „Það byrjaði þannig að móðir mín var ráðskona hjá Guðmundi Þorsteinssyni gullsmið og Ólafíu G. Jónsdóttur. Þau voru mikið vinafólk fjölskyldunnar og áttu engin börn. Ég var skírður í höfuðið á þeim og ég var mikið með þeim sem strákur. Þau voru með hesta á Hjarðarnesi á Kjalarnesi og átta ára gamall byrjaði ég að fara með þeim upp í hesthús og eignaðist minn fyrsta hest tíu ára gamall.“
Hestamennskan átti eftir að fylgja Ólafi lengi en hann var í hestamennskunni í meira en fjörutíu ár og var í Fák. „Svo vorum við bræðurnir með jörðina Hjarðarnes á Kjalarnesi og stunduðum heyskap fyrir hestana okkar í mörg ár.“
Eins og margir af eldri kynslóðinni muna var Verknámsskóli í Brautarholti í Reykjavík og þangað fór Ólafur eftir grunnskólann og byrjaði að læra trésmíði en árið 1967 byrjaði hann að læra gullsmíði.
„Ég byrjaði í námi hjá Árna Höskuldssyni gullsmið í kjallaranum á Laugavegi 11, á horni Smiðjustígs og Laugavegs. Ég man alltaf eftir því þegar það varð stór jarðskjálfti árið 1968. Þá var ég í kjallaranum á gullsmíðaverkstæðinu og ég sá bókstaflega gólfið ganga í bylgjum. Ég reyndi að komast út og þá festist hurðin, en ég komst að lokum út.“
Árið 1971 lauk Ólafur náminu í gullsmíðinni og þá byrjaði hann með sitt eigið gullsmíðaverkstæði, Gullsmíðavinnustofu Ólafs G. Jósefssonar, á Óðinsgötu 7 í Rafhahúsinu beint á móti Óðinsvéum. „Síðan flutti ég á Óðinsgötu 1 og var þar í einhver ár, þá kom inn í reksturinn Axel Eiríksson og verkstæðið hét Sigurverka- og skartgripasalan. Árið 1978 keyptum við Gullsmíðaverkstæði Guðmundar Þorsteinssonar í Bankastræti 12 og þar var Axel með mér í líklega sex ár en síðan tók ég við þessu alveg og hef rekið GÞ Skartgripi og úr allar götur síðan.“
GÞ Skartgripir og úr er elsta gullsmíðafyrirtæki landsins en það var stofnað 1923 og því orðið 102 ára, hafa því nokkrar kynslóðir verið viðskiptavinir. Ólafur færði út kvíarnar og rekur nú einnig Gullbúðina á Bankastræti 6. Tvö barna Ólafs fylgdu í fótspor föður síns í gullsmíðinni og eru í fjölskyldufyrirtækinu og eins hefur Anna María eiginkona hans unnið í fyrirtækinu.
„Ég kynntist Önnu Maríu í Glæsibæ árið 1974 og féll alveg fyrir henni enda stórglæsileg kona. Við fögnuðum 50 ára brúðkaupsafmæli núna 10. maí,“ segir hann og ljómar. Hann segir að þau séu mjög samhent og hafi gaman af því að ferðast þegar tækifæri gefst. „Í kringum 2000 hætti ég hestamennskunni og keypti mér sumarbústað í Grímsnesinu sem við fjölskyldan höfum mikla ánægju af.“
Fjölskylda
Eiginkona Ólafs er Anna María Markúsdóttir, f. 5.2. 1955. Foreldrar hennar voru Markús Grétar Guðnason, f. 9.2. 1921, d. 3.4. 2001, og Þóra Gunnarsdóttir, f. 19.8. 1919, d. 19.9. 2011, bændur á Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð.
Börn Ólafs og Önnu Maríu eru: 1) Guðmundur Vignir, bifvélavirki, f. 9.9. 1975, kvæntur Brynju Sævarsdóttur, f. 16.1. 1980, og þau eiga börnin Sævar Óla, f. 13.3. 2002, Heiðrúnu Önnu, f. 15.6. 2004, og Markús Orra, f. 5.10. 2010. 2) Svandís Björk, gullsmiður, f. 5.1. 1977, gift Hauki Björnssyni, f. 2.10. 1972, og þau eiga börnin Thelmu Sól, f. 2.7. 2001, og hún á soninn Pedro Brim Reis, f. 2022, Önnu Maríu, f. 12.5. 2004, Rakel Tinnu, f. 30.9. 2010, og Helenu Ísold, f. 9.5. 2012. 3) Kristinn Þór, gullsmiður, f. 15.6. 1983, kvæntur Önnu Rannveigu Aradóttur, f. 11.12. 1979, og þau eiga börnin Elínu Birtu, f. 7.1. 1998, Marló Björt, f. 24.9. 2003, og Ara Snæ, f. 12.11. 2009. 4) Birgir Örvar, bifvélavirki, f. 30.8. 1989, í sambúð með Katrínu Birnu Hermannsdóttur, f. 12.4. 1996, og þau eiga soninn Birni Hrafn, f. 5.5. 2021. 5) Sara Andrea, ljósmyndari, f. 16.12. 1994, gift Goða Ómarssyni, f. 2.4. 1991, og þau eiga synina Nökkva Frey, f. 8.1. 2020, og Bjarna Stein, f. 28.10. 2023.
Systkini Ólafs eru: Arnór Guðbrandur, f. 5.11. 1944, Sigursteinn, f. 11.4. 1946, d. 30.9. 2022, Reynir, f. 7.3. 1948, og Arndís, f. 5.1. 1953.
Foreldrar Ólafs eru Jósef Jón Sigurðsson, f. 18.12. 1918, d. 27.4. 1991, sjómaður, og Kristín Þórhildur Guðbrandsdóttir, f. 15.5. 1922, d. 30.10. 2010, húsfreyja, dagmóðir og ræstitæknir í Reykjavík.