Formúla 1 Vinsældir akstursíþrótta hafa aukist gríðarlega á Íslandi á undanförnum árum. Ekki er óalgengt að keppnir fari fram í miðborgum.
Formúla 1 Vinsældir akstursíþrótta hafa aukist gríðarlega á Íslandi á undanförnum árum. Ekki er óalgengt að keppnir fari fram í miðborgum. — AFP/Clive Rose
Væri mögulegt að koma upp götukappakstursbraut á höfuðborgarsvæðinu? Þessi spurning er meginviðfangsefni nýútgefinnar MS-ritgerðar í skipulagsfræði eftir Hugrúnu Hörpu Björnsdóttur frá Landbúnaðarháskóla Íslands

Björn Diljan Hálfdanarson

bdh@mbl.is

Væri mögulegt að koma upp götukappakstursbraut á höfuðborgarsvæðinu? Þessi spurning er meginviðfangsefni nýútgefinnar MS-ritgerðar í skipulagsfræði eftir Hugrúnu Hörpu Björnsdóttur frá Landbúnaðarháskóla Íslands.

„Rannsóknin er byggð bæði á eigindlegum og megindlegum rannsóknaraðferðum. Ég notaði heimildavinnu og viðtalsrannsóknir til að greina tækifæri og neikvæð áhrif götukappakstursbrauta á borgarumhverfi,“ segir Hugrún í samtali við Morgunblaðið.

Á undanförnum árum hefur áhugi á akstursíþróttakeppnum eins og Formúlu 1 og Formúlu E aukist til muna. Þessar keppnir fara oftar en ekki fram innan borgarmarka og er vegakerfi borganna notað sem akstursbrautir, annað eins má til dæmis sjá í Mónakó, Singapúr og Bakú í Aserbaídsjan. Þetta er gert til þess að hleypa aðdáendum nær íþróttinni sem og borginni. Brautirnar eru oftast í grennd við þekkt kennileiti.

Markmið ritgerðar Hugrúnar er að rannsaka hvort, og þá hvar, hægt væri að koma upp akstursbraut á höfuðborgarsvæðinu sem myndi uppfylla alþjóðleg viðmið Alþjóðlega akstursíþróttasambandsins (FIA) og hvaða afleiðingar það hefði í för með sér.

Þrjú svæði til skoðunar

Til skoðunar voru þrjú svæði á höfuðborgarsvæðinu sem voru metin vænlegust til árangurs. Sæbraut, Katrínartún, Laugavegur og Kringlumýrarbraut voru skoðuð sem möguleg kappakstursbraut sem og Sæbraut, Snorrabraut, Miklabraut og Kringlumýrarbraut. Svæði sem nær yfir Vesturlandsveg, Suðurlandsveg og brúna við Höfðabakka þótti það hentugasta af þeim sem voru til skoðunar, bæði út frá kröfum FIA og skipulagslegu sjónarhorni. Brautin á þessu svæði gæti náð allt að 5,2 km heildarlengd, sem samræmist kröfum FIA. Um er að ræða breiðar og beinar götur sem liggja að mestu í gegnum iðnaðar- og verslunarsvæði í austurhluta höfuðborgarsvæðisins, þar sem íbúabyggð er takmörkuð og áhrif á daglegt líf íbúa því minni en annars staðar.

Núverandi vegakerfi yrði nýtt fyrir brautina, en til að mæta tæknilegum öryggisviðmiðum þyrfti að gera talsverðar breytingar á svæðinu. Þar á meðal eru yfirborðsmerkingar, færanlegir öryggisveggir og vegrið, auk þess sem breikka þyrfti vegina á ákveðnum stöðum. Einnig yrði að koma fyrir nauðsynlegum þjónustusvæðum, svo sem aðstöðu fyrir lið og ökumenn, læknastöð og svæði fyrir áhorfendur.

Þetta er mögulegt

Hugrún telur að niðurstöður rannsóknarinnar sýni skýrt að götukappakstur á höfuðborgarsvæðinu sé virkilega mögulegur – að því gefnu að hann sé undirbúinn af vandvirkni og með langtímahugsun að leiðarljósi. Slíkur viðburður gæti falið í sér nýja möguleika fyrir þróun borgarlandsins, eflingu ferðaþjónustu og nýtingu svæða sem hingað til hafa verið lítið notu undir slíka viðburði. Hafa þarf samt í huga þau neikvæðu áhrif sem komið hafa fram. Svo sem kostnað, hljóðmengun, götulokanir og fleira. Einnig mætti skoða annars konar íþróttaviðburði, t.a.m. hjólreiðar, að sögn Hugrúnar. Ritgerð Hugrúnar er aðgengileg á Skemmunni.

Höf.: Björn Diljan Hálfdanarson