Þór Sigurgeirsson
Þór Sigurgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar áhrif frumvarpsins eru skoðuð kemur í ljós að áhrif breytinganna eru neikvæð um 1,5 milljarða króna fyrir sveitarfélögin í Suðvesturkjördæmi.

Almar Guðmundsson Ásdís Kristjánsdóttir Valdimar Víðisson Þór Sigurgeirsson

Frumvarp um breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga liggur til afgreiðslu á Alþingi. Í því endurspeglast nýjar áherslur stjórnvalda til jöfnunar á meðal sveitarfélaga. Óhætt er að segja að frumvarpið feli í sér kaldar kveðjur til allra 110 þúsund íbúa Suðvesturkjördæmis, sem bera vægast sagt skarðan hlut frá borði.

Þegar áhrif frumvarpsins á einstök sveitarfélög eru skoðuð kemur í ljós að samanlögð áhrif breytinganna eru neikvæð um 1,5 milljarða króna fyrir sveitarfélögin í Suðvesturkjördæmi. Ekkert annað kjördæmi verður fyrir viðlíka skerðingu sem skýtur skökku við þar sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taka mikið til sín þegar kemur að velferðartengdri þjónustu sem verður sífellt flóknari.

Annars vegar er um að ræða skerðingu til þeirra sveitarfélaga sem ekki eru með hámarksútsvar á sína íbúa og hins vegar skerðingar á almennu jöfnunarkerfi sjóðsins.

735 milljóna króna skattahækkun í skjóli jöfnunar

Í tillögum ríkisstjórnarinnar eru sveitarfélög sem ekki eru með útsvarið í hámarki sett í vonlausa stöðu. Þeim ber annaðhvort að hækka skatta á sína íbúa eða taka á sig fjárhagslegt tap upp á samtals 735 milljónir króna.

Í greinargerð með frumvarpinu stendur orðrétt:

3.5. Vannýting heimildar til útsvars.

„Í frumvarpinu er lögð til sú breyting í samræmi við tillögu starfshópsins að nýti sveitarfélag ekki útsvarshlutfall að fullu komi til lækkunar á framlögum úr Jöfnunarsjóði sem nemi mismuni á útsvari miðað við hámarksálagningu og útsvari miðað við álagningarhlutfall sveitarfélags.“

Þessi nálgun er alvarleg skerðing á sjálfsstjórn sveitarfélaga, sem er varin í stjórnarskrá og afmörkuð sérstaklega hvað varðar skatta og gjöld í 58. gr. sveitarstjórnarlaga. Hún skapar einnig ranga hvata þegar kemur að rekstri sveitarfélaga. Í þessu samhengi er jafnframt mikilvægt að benda á að ákvarðanir hvers sveitarfélags um útsvarsprósentu hafa engin áhrif á hlutdeild Jöfnunarsjóðs af útsvarsgreiðslum íbúa viðkomandi sveitarfélags. Hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarstekjum allra sveitarfélaga er ákveðin í lögum og er óháð því hver álagningarprósenta einstakra sveitarfélaga er. Sveitarfélög sem kjósa að leggja á lægra útsvar njóta því ekki góðs af því í gegnum sjóðinn.

Það er því misskilningur að Jöfnunarsjóður niðurgreiði útsvar þeirra stóru sveitarfélaga á suðvesturhorninu sem ekki leggja á hámarksútsvar. Það stenst enga skoðun. Ofangreind hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarstekjum viðkomandi sveitarfélaga er meiri en framlög sjóðsins til umræddra sveitarfélaga. Það má ekki gleyma því í umræðum um sjóðinn að stærstur hluti fjármagnsins sem hann útdeilir kemur í gegnum útsvarshlutdeild sveitarfélaganna vegna grunnskóla og málaflokks fatlaðs fólks.

800 milljóna skerðing í skjóli jöfnunar

Breytingar á svokölluðum jöfnunarframlögum þýða jafnframt neikvæðar breytingar fyrir sveitarfélög í Suðvesturkjördæmi upp á tæplega 800 milljónir króna. Gerist þetta þrátt fyrir að stór sveitarfélög eins og einkenna kjördæmið taki mikið til sín þegar kemur að velferðartengdri þjónustu og augljóst virðist að nýtt jöfnunarkerfi taki ekki nægilega mikið tillit til þess. Rétt er að ítreka að í þjónustu við fatlað fólk og börn á ýmsum aldri er þjónustuþörfin alltaf að verða flóknari og færa má rök fyrir því að hið nýja jöfnunarkerfi setji of strangar skorður þegar kemur að getu og stöðu stærri sveitarfélaga til að veita þá þjónustu sem ætlast er til.

Er betur heima setið en af stað farið?

Verði frumvarp ríkisstjórnarinnar óbreytt að lögum er ekki aðeins vegið að sveitarfélögum og íbúum í Suðvesturkjördæmi heldur er vegið að fjárhagslegu sjálfstæði sveitarfélaga í landinu og komið í veg fyrir að þau geti skilað ávinningi af góðum rekstri til bæjarbúa í lægri útsvarsprósentu. Hér er því verið að skapa ranga og varhugaverða hvata. Það er gert þrátt fyrir að ljóst sé að skattgreiðendur þessara sömu sveitarfélaga leggja umtalsverða fjármuni til jöfnunar í gegnum sjóðinn. Óbreytt frumvarp má ekki verða að veruleika og mun hafa afleiðingar til hins verra fyrir íbúa fjölmennasta kjördæmis landsins. Við skorum á alla þingmenn kjördæmisins að gæta hagsmuna þess og samþykkja ekki frumvarpið.

Almar er bæjarstjóri Garðabæjar. Ásdís er bæjarstjóri Kópavogs. Valdimar er bæjarstjóri Hafnarfjarðar. Þór er bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar.

Höf.: Almar Guðmundsson Ásdís Kristjánsdóttir Valdimar Víðisson Þór Sigurgeirsson