KVIKMYNDIR
Jóna Gréta
Hilmarsdóttir
Rétt eins og í flestum síðustu kvikmyndum í Júrasöguheiminum hafa vísindamenn stundað erfðafræðirannsóknir á risaeðlum á afskekktum stað og einhverjir vitleysingar ákveða að heimsækja þann stað, sem nú er yfirgefinn, þrátt fyrir hættuna. Í þessari nýjustu mynd er Zora Bennett (Scarlett Johansson), fyrrverandi sérsveitarkona úr hernum, ráðin af Martin Krebs (Rupert Friend) hjá lyfjafyrirtækinu ParkerGenix til að vinna með steingervingafræðingnum Henry Loomis (Jonathan Bailey) og gömlum vini sínum og samstarfsfélaga, Duncan Kincaid (Mahershala Ali), og teyminu hans að leynilegu verkefni á eyjunni Ile Saint-Hubert. Markmiðið er að sækja lífsýni úr þremur stærstu risaeðlum sögunnar til að þróa lyf sem gæti hjálpað mannkyninu. Fyrsta risaeðlan sem teyminu tekst að taka sýni úr er risaeðlan Mosasaurus og minnir helst á sjávarskrímsli. Á leiðinni á eyjuna bjarga þau fjölskyldu sem strandaði á sjó eftir risaeðluárás en fjölskyldan samanstendur af Reuben Delgado (Manuel Garcia-Rulfo), dætrum hans, Teresu (Luna Blaise) og Isabellu (Audrina Miranda), og bráðfyndnum kærasta Teresu, Xavier (David Iacono). Xavier gegnir mjög mikilvægu hlutverki í myndinni en það er að vera nauðsynlegt grínstoðtæki (e. comic relief) og létta stemninguna. Leiðir þeirra skilur hins vegar þegar hópur af risaeðlum ræðst á skipið og neyðir allt teymið til að fara í land. Skipið eyðileggst og þau eru strönduð á þessari frumstæðu eyju með stórhættulegum skepnum, risaeðlum. Fjölskyldan týnist aftur í árásinni og í myndinni fylgjumst við því með tveimur ólíkum hópum reyna að lifa af sólarhring á eyjunni, annars vegar krúttlegri fjölskyldu og hins vegar teymi sérfræðinga í leynilegu verkefni. Munurinn er sá að sérfræðingarnir fá þó alla vega vel borgað ef þeir lifa af ferðina.
Júraheimurinn: Endurfæðing er sjöunda myndin sem er gerð eftir bókum Michaels Crichtons og þrátt fyrir að áhorfendur hafi getað séð sex svipaðar myndir áður fannst leikstjóranum Gareth Edwards nauðsynlegt að hrútskýra fyrir áhorfendum hvað er að gerast hverju sinni. Áhorfendur er mataðir á upplýsingum fyrsta hálftímann og persónum gefinn bakgrunnur á mjög stuttum tíma í gegnum samtöl en það er mikilvægt að áhorfendur þekki persónurnar svo þeim sé ekki alveg sama ef og þegar þær deyja. Persónurnar eru hins vegar aðeins meira spennandi en í síðustu þremur myndum í kvikmyndaseríunni en það er virkilega gaman að fylgjast með þríeykinu Zoru Bennett, Henry Loomis og Duncan Kincaid. Það er gefið í skyn undir lok myndarinnar að þríeykið eigi eftir að koma fyrir aftur í kvikmyndaseríunni og hefði undirrituð ekkert á móti því enda sterkir og fjallmyndarlegir leikarar.
Seinni hlutinn eða sá hluti sem gerist á sjálfri eyjunni, þegar búið er að mata áhorfendur á helstu upplýsingum, er mjög spennandi og hryllilegur. Með því að hafa þessa tvo ólíku hópa og klippa á milli atriða, annars vegar með fjölskyldunni og hins vegar með sérfræðingunum, tekst Edwards að viðhalda spennu. Í seinni hlutanum tók svo við hin svokallaða „Júraheima-upplifun“ þar sem áhorfendur eiga erfitt með að sitja kyrrir í sætum sínum og þora varla að anda af ótta við að verða næsta bráð risaeðlanna. Leikstjóranum Gareth Edwards tekst þannig að ná markmiði sínu en þegar um er að ræða endurgerðir og framhaldsmyndir, er markmiðið þá ekki að endurskapa töfra fyrstu myndarinnar? Júraheimurinn: Endurfæðing kemst nær því en margar fyrri myndir í kvikmyndaseríunni.
Kvikmyndin er tekin upp á 35mm filmu sem er hefðin í þessari seríu en bara Júraheimurinn: Fallið ríki (2018) var skotin á stafræna tökuvél. Það að ákveða að skjóta á filmu er hins vegar stórt stökk fyrir leikstjórann þar sem síðasta myndin hans, Skaparinn (e. The Creator, 2023), var tekin upp á Sony FX3 sem er mjög ódýr og aðgengileg tökuvél. Litgreiningin er litrík og einstaklega falleg en það er líka einn kosturinn við það að skjóta á filmu og það þarf ekki að vinna litina í eftirvinnslu eins mikið og ef um væri að ræða stafræna vél. Áferð filmunnar og gamaldags grafíkin hjálpa til við að ná fram hinni ekta „Júraheima-upplifun“.
Í þessari sjöundu kvikmynd í risaeðluseríunni enduróma þekkt einkenni úr fyrri myndum; leynileg vísindarannsókn fer fram á einangruðum stað, hópur strandar meðal hættulegra risaeðla og barátta hefst um líf og dauða. Þrátt fyrir endurtekningu á þessari formúlu tekst leikstjóranum Gareth Edwards að skapa spennandi og hryllilega mynd, sérstaklega í seinni hlutanum. Persónusköpunin er sterkari en í undanförnum myndum og því verður spennandi að sjá hvort þessar persónur fái að lifa fleiri myndir af.