Skák
Helgi Ólafsson
helol@simnet.is
Skákþyrstir létu rigningardembur ekki aftra sér þátttöku þegar þegar blásið var til hraðskákmóts í Laugarvatnshelli sl. laugardag. Fontana Spa, VignirVatnar.is og The Caves of Iceland voru helstu forsprakkar mótsins. Í byrjun 20. aldar hýsti þessi hellir tvær fjölskyldur með skömmu millibili en búseta þeirrar sem síðar kom varði í ein þrjú ár. Hinn hugmyndaríki athafnamaður Kristófer Gautason fékk þessa flugu í höfuðið; að halda skákmót í helli, og mættu 48 keppendur til leiks. Hellirinn leyfði þó aðeins sex viðureignir á efstu borðum en utan dyra var slegið upp stóru tjaldi sem hýsti aðrar viðureignir. Netsamband var stopult og þurfti skákstjórinn Gunnar Björnsson að tilkynna pörun hverrar umferðar hátt og snjallt og gerði það með glöðu geði því hann er auðvitað í eðli sínu Hellismaður eftir að hafa stofnað taflfélag með því nafni árið 1991.
Nýbakaður Íslandsmeistari, Vignir Vatnar Stefánsson, bar sigur úr býtum og kom ekki á óvart, hlaut 6½ vinning af 7 mögulegum, en í 2. sæti varð Arnar Milutin Heiðarssson og Ingvar Þór Jóhannesson þriðji.
Hópur Íslendinga teflir á Korsíku
Heiti eyjarinnar kallar fram nafn Napóleóns Bonaparte sem þar fæddist. Hann var mikill skákáhugamaður og því alls ekki úr vegi að halda skákmót á þessum slóðum. Dagur Ragnarsson, Hilmir Freyr Heimisson, Hallgerður Helga Þorsteinsdóttir, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, Hrund Hauksdóttir og Veronika Steinunn Magnúsdóttir luku keppni þar í gær en úrslitin lágu ekki fyrir þegar þessi grein var rituð. Dagur Ragnarsson sat í 5. sæti ásamt nokkrum öðrum með 5½ vinning af 8 mögulegum, ½ vinningi á eftir efstu mönnum.
Fjölmargar skákir mótsins hafa verið í beinni útsendingu á Lichess og var laglegt að sjá hvernig Dagur náði að snúa niður kínverskan andstæðing sinn þegar taflið opnaðist eftir hnífjafna stöðu í byrjun tafls:
10. Opna Marina Viva-mótið á Korsíku, 7. umferð:
Dagur Ragnarsson – Muxi Chen
Enskur leikur
1. Rf3 c5 2. g3 g6 3. Bg2 Bg7 4. c4 Rc6 5. Rc3 e6 6. d3 Rge7 7. Bd2 0-0 8. Dc1
Á sínum tíma lagðist Dagur yfir bók Rúmenans Mihails Marins um enska leikinn. Þar var þetta afbrigði, sem höfundur nefndi eftir Fischer, tekið til rækilegrar sundurgreiningar.
8. … d5 9. Bh6 d4 10. Bxg7 Kxg7 11. Rb1 e5 12. 0-0 Dd6 13. e3 Bf5 14. e4 Bg4 15. h3 Bxf3 16. Bxf3 h5 17. h4 Rd8 18. Rd2 Re6 19. Bg2 f6 20. Rf3 a6 21. Bh3 Rc6 22. Dd2 b5 23. Hac1 b4 24. Rh2
Svo virðist sem hvítur ætli að reyna framrás f-peðsins sem ætti þó ekki að valda svarti miklum erfiðleikum. En hann vill verða fyrri til.
24. … f5? 25. exf5 gxf5 26. De2 Kh6 27. Bg2!
Helsti gallinn við opnun stöðunnar er hér kominn fram. Biskupinn á g2 er skyndilega orðinn stórveldi og það er bein hótun á skipta upp á c6.
27. … Hac8 28. Hce1 Red8 29. f4!
Svartur er eiginlega varnarlaus eftir þennan leik. Riddarinn er á leið til f3 og kóngsstaða svarts er of veikburða.
29. … Dg6 30. Df2 Re6 31. Bxc6! Rxf4
Staða svarts er vonlaus eftir 30. … Hxc6 31. Hxe5 o.s.frv. Nú er hótunin 32. … Rh3+ en hvítur á auðvelt með að verjast.
32. Bg2! Rxd3 33. Dd2+ f4 34. He4!
34. … Rxb2 35. Dxb2 fxg3 36. Dd2 Kh7 37. Rf3
– og svartur gafst upp.