Flóki Larsen
floki@mbl.is
„Ég hitt Sigurd aldrei en vissi alltaf af hvarfi hans sem hefur verið sem ör á sál fjölskyldunnar. Það eina sem við ættingjar hans vissum var að hann sigldi á haf út og sneri ekki aftur. Setning legsteinsins hefur mikla þýðingu fyrir okkur. Það breytti miklu fyrir okkur að vita loksins hvar frændi okkar hvílir, hér á Íslandi,“ sagði Rigmor Holm við Morgunblaðið við athöfn í Flateyrarkirkjugarði í gær.
Rigmor flutti erindi um frænda sinn á Flateyri, þar sem hún mætti ásamt fleiri ættingjum til að vera viðstödd þegar legsteinn varður lagður við gröf Sigurds Arvids Nilsens.
Flateyringar hlúðu að gröfinni
Lík Sigurds fannst á sjó úti árið 1942. Gröfin hefur verið merkt „óþekkta sjómanninum“ hingað til en í fyrra lýstu norsk yfirvöld því yfir opinberlega að Sigurd hvíldi í henni.
„Saga Sigurds hefur mikla þýðingu fyrir okkur, sérstaklega í ljósi þess hversu vel íbúar Flateyrar hafa sinnt gröf hans,“ sagði Haakon Vinje, sem er yfirmaður norsku stríðsgrafaþjónustunnar, við Morgunblaðið. Haakon segir sögu Sigurds til marks um samstöðu fólks í sjávarþorpum en Sigurd kom frá Gildeskål, sem er sjávarþorp eins og Flateyri. Íbúar Flateyrar hafa á sjómannadaginn jafnan lagt blómsveig við gröf Sigurds.
Haakon segir þetta í fyrsta skiptið síðan árið 2000 sem stríðsgrafaþjónustunni hafi tekist að bera kennsl á fallinn hermann í óþekktri gröf. Stafræn væðing gagnasafna í Noregi og annars staðar hafi hjálpað í tilfelli Sigurds.
Grein Friðþórs Eydals, sem birtist í Bæjarins bestu árið 2009, segir Haakon að hafi verið upphafið að því að norsk yfirvöld staðfestu hver hvíldi í gröfinni. Friðþór rakti söguna en Sigurd fórst með skipinu DS Fanefeld, þar sem hann var loftvarnarskytta. Tundurskeyti var varpað á skipið úr kafbáti þýskra nasista fyrir utan Vestfirði.
„Á stríðstímum snýst allt um stóru orrusturnar en það er mikilvægt að við munum eftir einstaklingum sem bera þær orrustur sem háðar eru. Það verður að minnast nafna og andlita þeirra. Því er gott að geta fært minningu Sigurds til Noregs,“ sagði Hans K. Sundsbø, yfirprestur norska sjóhersins. Hann leiddi minningarathöfn í Flateyrarkirkju ásamt séra Magnúsi Erlingssyni fyrir lagningu legsteinsins.