Ymur Art Runólfsson var í gær sakfelldur fyrir að hafa orðið 68 ára gamalli móður sinni að bana í Breiðholti í október á síðasta ári. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi þann dóm að þótt hann væri metinn sakhæfur á verknaðarstundu yrði honum ekki gert að sæta refsingu heldur yrði honum gert að sæta öryggisvistun.
Ekki liggur fyrir hversu lengi hann mun sæta öryggisvistun. Karl Ingi Vilbergsson sótti málið fyrir héraðssaksóknara og sagði að ákæruvaldið hefði farið fram á refsingu en dómurinn hefði talið að það myndi ekki skila árangri.
Fyrir luktum dyrum
Dómurinn var kveðinn upp í gær fyrir luktum dyrum og hefur ekki verið birtur. Vísir greindi frá innihaldi hans.
Í ákærunni gegn Ymi Art kemur fram að hann hafi verið sakaður um að hafa orðið móður sinni að bana með því að stinga hana 22 sinnum í brjóst, handleggi og hendur.
Hann hafði nýverið afplánað dóm fyrir líkamsárás gegn móður sinni þegar hann varð henni að bana. Þá var hann ákærður árið 2006 fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa stungið föður sinn í bakið.