Tímamót Diddú heldur upp á 70 ára afmælið með tónleikum í Hörpu.
Tímamót Diddú heldur upp á 70 ára afmælið með tónleikum í Hörpu. — Ljósmynd/Sveinn Speight
Söngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir eða Diddú fagnar 70 ára afmæli sínu með stórtónleikum í Eldborg í Hörpu 7. september og er að hefja æfingar. „Ég verð með frábæra spilara mér til halds og trausts og Pál Óskar, litla bróður minn, sem…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Söngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir eða Diddú fagnar 70 ára afmæli sínu með stórtónleikum í Eldborg í Hörpu 7. september og er að hefja æfingar. „Ég verð með frábæra spilara mér til halds og trausts og Pál Óskar, litla bróður minn, sem gestasöngvara auk fjölmargra leynigesta en á milli söngatriða rekur Ólafur Egilsson mína sögu eins og honum einum er lagið,“ segir hún. „Hann ætlar að rekja mig upp og þetta verður þverskurður af ferlinum.“

Opinber söngferill Diddúar spannar yfir 50 ár. „Ég hef hlúð frekar vel að „hljóðfærinu“ sem mér var gefið og passað vel upp á það, æfi mig enn daglega til að halda því vel smurðu. Ég er lánsöm að hafa haldið því í eins góðu formi og raun ber vitni og þurfa ekki að lenda í því að fólk biðji mig um að hætta þessu.“

Hún hlær dátt og er komin á skrið. „Það er svo mikilvægt að geta stjórnað gjöfinni, „hljóðfærinu“, sjálf.“

Þrjósk og bjartsýn

Útlitið var samt ekki bjart í byrjun söngferilsins. Þegar Diddú var að hefja klassískt söngnám í London fór hún í eyrnaaðgerð sem misheppnaðist og olli algjöru heyrnarleysi á öðru eyranu. „Ég þráaðist í gegnum það tímabil, fór í gegnum það á þrjóskunni og fann mína leið til að nýta „hljóðfærið“ til fulls þrátt fyrir þessa fötlun. Ég heyri alveg nóg og það er líka þannig að tóneyrað er í heilanum en ekki í eyranu.“

Diddú segir að til að byrja með hafi henni þótt ástandið vera eðlilegt án þess að átta sig á því að þetta væri í raun gífurleg fötlun en hún hafi smátt og smátt aðlagað sig breyttum aðstæðum. „Ég á afmæli í ágúst og er því ljón en ég er líka kamelljón og get aðlagað mig öllu. Ég er líka svo þrjósk að ekkert stoppar mig. Ég er þrjósk og bjartsýn að upplagi og held að það sé góð blanda.“

Söngferill Diddúar einkennist af sigrum á sigra ofan og Diddú segir að enginn einn standi upp úr. Hápunktarnir séu því margir og hún reyni að endurvekja þá á tónleikunum. Til að nefna nokkra bendir hún á að fyrsta óperuhlutverkið hafi verið mjög stór stund. Sama sé að segja um allt ævintýrið með Spilverksstrákunum. „Það er líka eftirminnilegt þegar ég fékk að syngja með José Carreras í Laugardalshöll 17. september 2001. Ég gleymi því aldrei því viku áður höfðu turnarnir í New York fallið og ég var hrædd um að þetta yrði blásið af. En sem betur fer kom José til landsins og tónleikarnir voru ótrúleg stund.“ Hún minnist líka opnunartónleikanna í Eldborg í Hörpu, hún hafi sungið í fyrstu óperunni, Töfraflautunni, sem þar hafi verið sett upp og á fyrstu Vínartónleikunum í húsinu. „Að ónefndum öllum tónleikunum erlendis eins og til dæmis í Keisarahöllinni og Egginu í Peking, Krjúsjefhöllinni í Kreml, Carnegie Hall í New York, Barbican í London og Tónleikahöllinni í Pétursborg.“

Diddú segir spennandi að gera upp söguna með þessum hætti en áréttar að hún sé í fullu fjöri og þetta séu ekki endalokin. „Eflaust verður gott spennufall að tónleikunum loknum en ég held áfram að syngja, þetta verður ekki svanasöngurinn.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson