Kristján Már Hauksson
Kristján Már Hauksson
Fyrirtæki sem verða „AI first“ og sjá gervigreind sem sjálfsagðan hluta af innviðum sínum munu leiða.

Kristján Már Hauksson

Smæð Íslands gerir okkur kleift að þróa lausnir hratt, prófa þær á litlum skala og færa þær út. En til þess þarf skýra sýn og markvissa stefnumótun. Gervigreind er þegar farin að umbylta atvinnugreinum, skapa tækifæri fyrir þá sem aðlagast og grafa undan þeim sem gera það ekki.

Við stöndum á tímamótum eins og Eyþór Ívar Jónsson segir í grein sinni „Í hringiðu skapandi eyðileggingar“. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að við stöndum frammi fyrir nýrri staðreynd, nefnilega þeirri að hausinn sé ekki eins verðmætur og áður. Greinin
undirstrikar að þetta snýst ekki bara um hraða eða skilvirkni, heldur um að yfirstíga kúltúr, tungumál og hindranir tengdar skipulagi sem standa í vegi fyrir þátttöku Íslands í
alþjóðlegum viðskiptum og
þróun.

Það sem reynslan hefur kennt mér

Fyrir mörgum árum kom ég að stofnun fyrirtækisins Nordic eMarketing, stafrænnar auglýsingastofu sem fann forskot sitt í ákveðnu sérsviði: fjöltyngdri markaðssetningu. Í stað þess að keppa á óþroskuðum markaði innanlands einbeittum við okkur að því að aðstoða alþjóðleg fyrirtæki við að markaðssetja þvert á landamæri og tungumál. Sú nálgun tryggði okkur viðskiptavini á borð við Fujitsu, Hitachi, VMware og Symantec, ekki vegna staðbundinnar markaðsþekkingar okkar á Íslandi, heldur vegna þess að við höfðum byggt upp einstaka getu til að leysa flókin margtyngd markaðsvandamál sem fáir aðrir tóku sér fyrir hendur.

Markmiðið var samt alltaf að sækja þekkingu út fyrir landsteinana og flytja hana heim í gegnum Reykjavik Internet Marketing Conference (RIMC) og tengja þannig Ísland við nýjustu strauma í alþjóðlegri stafrænni markaðssetningu. Í gegnum RIMC fengu íslensk fyrirtæki og fagfólk beinan aðgang að erlendum sérfræðingum, kerfum og nýjungum löngu áður en slíkar upplýsingar urðu sjálfsagðar á netinu og við fengum aðgang að erlendum viðskiptavinum.

Sú nálgun, að læra á heimsvísu og veita þessari þekkingu farveg heima, skiptir enn meira máli nú þegar við göngum inn í nýja öld skapandi eyðileggingar (endilega lesið greinina), knúna áfram af gervigreind.

Rétt eins og við þróuðum áður þekkingu sem hægt var að selja út og vettvang til að flytja innsýn inn verðum við nú að gera slíkt hið sama með gervigreind. Fyrirtæki sem verða „AI first“ og sjá gervigreind sem sjálfsagðan hluta af innviðum sínum munu leiða.

Við verðum að fjárfesta í læsi á gervigreind, innviðum og menningu sem styður við sköpun verkfæra sem endurspegla íslenskar aðstæður og tungumál, og við verðum að læra á heimsvísu, koma með þekkinguna heim, læra, aðlaga og flytja út. Þetta virkaði áður, og mun skilgreina framtíðarhlutverk Íslands í nýju, stafrænu heimshagkerfi.

Höfundur er tæknisinnaður markaðsmaður.

Höf.: Kristján Már Hauksson