Fjöldinn allur af stuðningsmönnum knattspyrnufélagsins Liverpool hefur lagt leið sína að heimavelli liðsins við Anfield síðustu daga og skilið þar eftir trefla, treyjur, blóm og ýmislegt annað til heiðurs Portúgalanum Diogo Jota, framherja liðsins, sem lést í bílslysi á Spáni ásamt bróður sínum síðastliðið miðvikudagskvöld.
Liverpool-klúbburinn á Íslandi birti meðal annars mynd á samfélagsmiðlum í gær þar sem mátti sjá að sérmerktur trefill frá klúbbnum hérlendis hafði verið skilinn eftir við völlinn til þess að votta leikmanninum virðingu.
Jota var dýrkaður og dáður af stuðningsmönnum Liverpool en hann skoraði 65 mörk í 185 leikjum fyrir félagið. Jota verður jarðaður í dag og verður Marcelo de Sousa forseti Portúgals viðstaddur útförina.