Soffía „Ef ég ætla að fjalla um raunverulegt líf, þá verð ég að afhjúpa mig. Stór hluti af mér og bókinni er trú.“
Soffía „Ef ég ætla að fjalla um raunverulegt líf, þá verð ég að afhjúpa mig. Stór hluti af mér og bókinni er trú.“ — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Kveikjan að bókinni er þetta limbó að vera hvorki ung né gömul, mín upplifun á því að vera á þessum stað í tilverunni þar sem rosalega mikið er búið og vonandi heilmikið eftir. Börnin mín eru orðin fullorðin og hver er ég þá?“ segir…

VIÐTAL

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Kveikjan að bókinni er þetta limbó að vera hvorki ung né gömul, mín upplifun á því að vera á þessum stað í tilverunni þar sem rosalega mikið er búið og vonandi heilmikið eftir. Börnin mín eru orðin fullorðin og hver er ég þá?“ segir Soffía Bjarnadóttir rithöfundur sem nýlega sendi frá sér sína sjöundu bók, Áður en ég brjálast – Játningar á miðjunni. Þar segir frá konu á miðjum aldri sem flytur tímabundið til þorps við Miðjarðarhafið þar sem hún er í slagtogi við dimmbláan drykkfelldan goðsögulegan hest. Heimsmynd hennar hefur riðlast og hún tínir fram minningabrot í bland við tilvistarlegar pælingar.

„Rétt eins og konan í sögunni þá fór ég til þorps við Miðjarðarhafið, en ég hef í gegnum tíðina oft farið eitthvað í burtu og verið að skrifa, ein eða með öðrum. Ég er í þessari sögu að segja frá mér og mínu lífi, það er ekkert leyndarmál, en um leið verður þetta að einhverju öðru í skáldskap. Sögumaðurinn er haltrandi kona með brotnar tennur og vissulega líður mér stundum eins og ég sé þannig, en alls ekki alla daga,“ segir Soffía og hlær. „Þetta er meira lýsing á andlegu ástandi, og þótt þessi persóna sé dregin upp úr mínu lífi þá er útkoman sambland af sannleika og skáldskap, rétt eins og líf okkar allra er.“

Er mér lífsnauðsyn að skrifa

Bókin er stútfull af tilvistarlegum pælingum og höfundur speglar sig líka í nokkrum goðsögum.

„Allt sem tengist goðsögum hefur verið tengt lífi mínu í gegnum tíðina og ég skrifaði MA-ritgerð um goðsögur á sínum tíma, þær geta speglað afl umbreytinga á magnaðan hátt. Pælingar um lífið og tilveruna og tilvist mannsins hafa alltaf verið hluti af mér. Ég fylgdi innsæinu í skrifunum, fór í ferðalag þar sem var ákveðið sterkt tog og ég sá ekki alltaf hvert það myndi leiða mig. Bygging sögunnar er samt alveg útpæld hjá mér, en á leiðinni var ég rétt eins og þessi kona stödd á einhverri strönd að velta fyrir mér hvar ég væri stödd í sjálfri mér og tilverunni. Ég spurði sjálfa mig að því hvort ég vildi halda áfram að skrifa, starfa sem rithöfundur, hvort ég vildi kannski gera eitthvað annað. Þetta val sem við tökum á lífsleiðinni getur skipt svo miklu máli, þótt það virki kannski smávægilegt þegar við ákveðum að fara til dæmis í þessa ferð eða hina, hætta í einhverri vinnu eða ekki, eða ljúka ástarsambandi. Hvers konar val getur haft afgerandi áhrif á okkur,“ segir Soffía sem hefur ekki sent frá sér bók í meira en þrjú ár, sem er óvenjulangur tími á milli verka hjá henni.

„Ég hafði reynt að strögla við að lifa á skrifunum, með aukavinnu, en prófaði að fara í stútfulla vinnu í tvö ár, allt aðra en að skrifa. Þetta varð til þess að ég komst að því enn og aftur að það er mér lífsnauðsyn að skrifa, svo ég hætti í vinnunni og hellti mér aftur í skáldskapinn af heilum hug,“ segir Soffía og tekur fram að hún hafi aldrei hætt alveg að skrifa í þessi tvö ár, heldur steig hún aðeins út úr því að starfa einvörðungu við það.

Mjög andlega þenkjandi

Heilmiklar heimspekilegar pælingar eru í bók Soffíu, t.d. um líkamann, hulstrið sem ferðast með okkur, en er stundum framandi.

„Við erum alltaf í einhverri glímu á hvaða aldri sem við erum, með þessa tilveru að vera líkami og ekki líkami. Mér finnst líka spennandi að undrast yfir þeim breytingum sem verða á líkamanum yfir ævina og lífið sjálft kemur manni endalaust á óvart,“ segir Soffía sem kemur inn á margt mjög persónulegt í nýju bókinni, m.a. áföll, ástarsambönd, erfiðan vinamissi og það að kljást við þunglyndi.

„Ég hefði aldrei getað skrifað þetta fyrir tíu árum, þegar ég var fertug, en nú er ég ekkert hrædd við að segja frá þunglyndi eða öðru erfiðu í mínu lífi, enda er mér með aldrinum meira sama um hvað öðrum finnst. Mér finnst þunglyndi og aðrar flækjur sem búa í sál og líkama vera sammannlegt fyrirbæri og ef ég ætla að fjalla um raunverulegt líf, þá verð ég að afhjúpa mig. Ef ég ætla að fjalla um líf annarra, þess fólks sem stendur mér næst, þá verð ég að vera jafn opin um mig sjálfa. Ég lagði upp með að vera svolítið skýr, að segja frá flóknum eða harmrænum atburðum í lífi mínu á skýran hátt, en ég hef stundum verið álitin tyrfin, sem er eflaust hluti af mér líka, en það endurspeglar samt ekki hver ég er. Ég vona að húmorinn skili sér í gegn í þessari bók, kaldhæðnin, því eftir á að hyggja geta dramatískir atburðir í lífi okkar verið svolítið fyndnir, þótt það hafi ekki verið skemmtilegt að takast á við þá á sínum tíma. Mig langaði að skrifa fallega sögu um strögl lífsins, og ástina. Þrátt fyrir að sumt sé svolítið dimmt í sögunni, þá er hún falleg. Stór hluti af mér og bókinni er trú, þetta sambland af því jarðneska og því yfirskilvitlega. Ég er mjög andlega þenkjandi, alveg trúuð en samt á minn persónulega hátt. Mér finnst fólk stundum hrætt við trúmál, en trúin getur verið eitt það persónulegasta í lífinu, jafnvel meira en kynlíf. Trú er oft feimnismál, fólk þorir varla að segja að það sé trúað því það er álitin einhvers konar bilun eða að viðkomandi sé að nota trú til að flýja frá einhverju.“

Á milli kafla í bókinni skrifar Soffía nafn á lagi og flytjanda og oft tónar titillinn við innihald kaflans, en ekki alltaf.

„Stundum tengjast lögin tímabilum sem ég er að fjalla um hverju sinni, en stundum setti ég lögin inn rétt eins og leikhljóð eða kvikmyndatónlist, til að skapa stemningu. Ég vann þetta mjög gaumgæfilega og það fór mikill tími í að færa lög til, en ég vann þetta mest á innsæinu. Þetta eru lög sem skipta mig mismiklu máli; sum hafa dvalið með mér alla tíð en önnur skamma stund. Mig langaði að hafa þau hversdagleg, stundum voru þetta lög sem ég var með á heilanum þegar ég var að skrifa viðkomandi kafla. Tónlist skiptir mig miklu máli og þar sem ég er að fjalla um eigið líf í þessari sögu, þá fannst mér tónlistin vera liður í að sýna líf mitt og hreyfa við lesanda með fleiri skilningarvitum. Þetta er sviðsetning eins og sagan, enda er ég hugfangin af leikhúsi.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir