Elínborg Una Einarsdóttir
Birta Hannesdóttir
Mikil ferðahelgi er að baki en nóg var um að vera um land allt, tónleikar, fótboltamót og ýmislegt fleira.
Á Akranesi kom mikill fjöldi saman á Írskum dögum en meðal dagskrárliða voru brekkusöngur, keppni um rauðhærðasta Íslendinginn og tónleikar hljómsveitarinnar Quarashi sem kom saman á ný eftir langt hlé.
Tvö fótboltamót voru á Akureyri, N1-mót KA og Pollamót Þórs, og því mikill fólksfjöldi í bænum.
Í Vestmannaeyjum var haldin goslokahátíð og goslokahlaup var meðal dagskrárliða þar sem Væb-bræður héldu upp fjörinu.
Hátíðin Allt í blóma var í Hveragerði en þar var mikil stemning þrátt fyrir að aflýsa þyrfti tónleikum Stjórnarinnar á föstudagskvöldinu vegna veikinda söngkonunnar, Siggu Beinteins.
Á Vestfjörðum voru tvær vel sóttar bæjarhátíðir, Bíldudals grænar baunir og Markaðshelgin í Bolungarvík.
Höfuðborgarbúar létu ekki sitt eftir liggja. Gestir og gangandi gæddu sér á dýrindis veitingum í miklu blíðviðri á hinu árlega Langborði á Laugavegi á laugardaginn.