Ferðalög Töluverð umferð var á Suðurlandsvegi síðdegis í gær.
Ferðalög Töluverð umferð var á Suðurlandsvegi síðdegis í gær. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
Ein helsta ferðahelgi ársins er að baki og gekk nokkuð áfallalaust fyrir sig. Töluverð umferð var í bæinn síðdegis í gær þegar ferðalangar skiluðu sér aftur heim. Umferðin gekk vel fyrir sig og engin slys urðu, að sögn varðstjóra í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

Birta Hannesdóttir

birta@mbl.is

Ein helsta ferðahelgi ársins er að baki og gekk nokkuð áfallalaust fyrir sig. Töluverð umferð var í bæinn síðdegis í gær þegar ferðalangar skiluðu sér aftur heim. Umferðin gekk vel fyrir sig og engin slys urðu, að sögn varðstjóra í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglumönnum á vakt var fjölgað um helgina á nokkrum stöðum þar sem von var á miklum fólksfjölda. Fjölfarnir vegir voru sérstaklega vaktaðir og má þar nefna Suðurlandsveg og Vesturlandsveg.

Að sögn Ásmundar Kr. Ásmundssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vesturlandi, gengu hátíðahöld helgarinnar vonum framar. Á Akranesi voru Írskir dagar haldnir og náðu hátíðahöldin hámarki á laugardag þegar Lopapeysan fór fram. Þúsundir manna sóttu Akranes heim um helgina.

Þung umferð var á Akureyri um helgina en að sögn varðstjóra gekk hún vel. Eitt umferðarslys varð á svæðinu á föstudagskvöld þegar þrjú ökutæki skullu saman. Sex voru í bílunum en enginn hlaut alvarleg meiðsl. » 4

Höf.: Birta Hannesdóttir