Fréttaskýring
Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Hvíta húsið mun á mánudag senda tólf viðskiptaríkjum Bandaríkjanna formlega tilkynningu um þá hækkuðu tolla sem lagðir verða á innflutning til Bandaríkjanna nema viðkomandi ríki fallist á þá viðskiptaskilmála sem bandarísk stjórnvöld fara fram á.
Líkt og Morgunblaðið greindi frá á sínum tíma tilkynnti Donald Trump það í apríl að hann hyggðist snarhækka tolla á innfluttar vörur um allt að 50%, en skömmu síðar ákvað hann að fresta tollahækkuninni um 90 daga og lét þess í stað duga að leggja á flatan 10% viðbótartoll á allan innflutning. Stóð til að nota tímann til að semja um tollamálin og var markið sett á að ljúka samningum við 90 lönd á þessum 90 dögum.
Á miðvikudag mun 90 daga fresturinn renna út og hafa samningar gengið hægar en vonir stóðu til. Hefur Trump gefið í skyn að ef ekki náist ásættanleg niðurstaða muni hann leggja á jafnvel enn hærri tolla en rætt var um í apríl og gætu viðbótartollarnir numið allt að 70%. Munu nýju tollarnir taka gildi 1. ágúst, að öllu óbreyttu.
Reuters greinir frá að Trump sé óhress með hversu treg helstu viðskiptaríki Bandaríkjanna hafa verið til að semja og hafa bæði viðræður við Japan og Evrópusambandið siglt í strand. Virðist þolinmæði Trumps á þrotum og á föstudag sagði forsetinn blaðamönnum að best og auðveldast væri einfaldlega að senda bréf.
Gagnrýnendur forsetans höfðu áður bent á að það væri óraunhæft að semja um tollamál með svo miklu hraði en alla jafna taka tollaviðræður mörg ár og snerta ekki aðeins á upphæð tolla heldur fjalla einnig um aðrar skorður – jafnt beinar sem óbeinar – sem torvelda viðskipti á milli þjóða.
Aðeins þrír í höfn
Fram að þessu hefur aðeins tekist að ljúka samningum við Kína, Bretland og Víetnam. Bresk stjórnvöld náðu m.a. að semja um hagstæð gjöld á breska bíla og flugvélahreyfla, og Víetnam samdi um 20% toll á víetnamskan varning, í stað þess 46% tolls sem Trump hafði hótað, en á móti verða tollar felldir niður á fjölmargar bandarískar vörur. Samningurinn við Víetnam felur einnig í sér að 40% tollur verður lagður á vörur sem hefur verið umskipað í Víetnam, og er það einkum gert til þess að kínverskir framleiðendur geti ekki farið á svig við tolla með því að senda varning sinn til Bandaríkjanna í gegnum Víetnam.
Scott Bessent fjármálaráðherra Bandaríkjanna fylgdi ummælum forsetans eftir og kvaðst reikna með að þeim viðskiptalöndum sem fá bréf frá Trump í vikunni verði mjög í mun að ljúka samningum sem fyrst. Bessent sagði jafnframt að um 100 lönd sem eiga í litlum viðskiptum við Bandaríkin megi eiga von á bréfi sem útlistar að vörur þeirra muni bera 10% viðbótartoll.