Elínborg Una Einarsdóttir
elinborg@mbl.is
Mikil tímamót verða hjá Landhelgisgæslunni á morgun, þriðjudag, en þá lætur smyrjarinn Haukur Davíð Grímsson af störfum. Þar með verður enginn eftir í flota gæslunnar sem tók þátt í þorskastríðunum en á næsta ári verður hálf öld liðin frá því að þeim lauk.
Haukur hóf störf hjá Gæslunni árið 1972, þá 17 ára gamall, en Sveinn Magnússon frændi Hauks var smyrjari á gamla Þór og útvegaði unglingnum vinnu á skipinu. Haukur tók þátt í tveimur þorskastríðum, í 50 mílna stríðinu árið 1972 og 200 mílna stríðinu 1975-1976, fyrst á Óðni en svo á Tý.
Haukur ræddi um upplifunina við Morgunblaðið árið 2022 þegar hann átti 50 ára starfsafmæli. Þá sagði hann að um óvenjulega lífsreynslu hefði verið að ræða. „Mér fannst þetta mjög gaman, spennandi, en ég fékk reyndar stundum í magann þegar þeir sigldu á okkur og við vorum varnarlausir niðri í vél, fundum bara þegar dallurinn skall á okkur,“ sagði Haukur, sem tók þó fram að hann hefði aldrei óttast um líf sitt.
Síðustu árin hefur Haukur verið smyrjari á varðskipinu Freyju. Verður honum haldið kveðjuhóf um borð í skipinu þegar það leggst að bryggju á morgun.