Óformlegar vopnahlésviðræður eru hafnar á ný á milli sendinefnda Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas. Sendinefndirnar funduðu í Doha höfuðborg Katar í gær. Benjamín Netanjahú mun í dag sækja fund með Donald Trump Bandaríkjaforseta. Hann kveðst bjartsýnn á að fundurinn hafi jákvæð áhrif á viðræður um vopnahlé.
„Við erum að vinna að því að ná þessum samningi sem við höfum rætt, samkvæmt þeim skilyrðum sem við höfum samþykkt,“ sagði Netanjahú áður en hann steig um borð í flugvél sem flaug með hann til Washington síðdegis í gær.
Í síðustu viku bárust fréttir af því að bæði Ísraelsmenn og Hamas hefðu samþykkt tillögu Bandaríkjastjórnar um sextíu daga vopnahlé á Gasa.